Staðgreiðslan hækkar skatta.

Greinar

Skýr rök hafa verið leidd að hættu, sem er samfara frumvarpi ríkisstjórnarinnar um staðgreiðslu skatta. Sveinn Jónsson, viðskiptafræðingur í Seðlabankanum, hefur sannað, að það muni leiða til þyngri skattbyrðar á öllum þrepum skattstigans.

“Tökum sem dæmi efsta skattþrepið. Samkvæmt núgildandi lögum greiðir sá, sem í því þrepi lendir, 40 krónur í tekjuskatt af 100 króna viðbótartekjum, en greiðsla fer að meðaltali fram einu ári eftir að teknanna er aflað.

Samkvæmt frumvarpinu á að greiða 34 krónur á sama ári og tekjurnar falla til. Þessar upphæðir má bera saman með því að taka með í reikninginn ársvexti, sem nú eru greiddir af svokölluðum vaxtaaukareikningi hjá innlánsstofnunum, en þeir eru 33%.

Þá kemur í ljós, að 40 krónur að ári liðnu samsvara 30 krónum í dag. Efsta þrep hins nýja skattstiga ætti því að vera 30% en ekki 34%. Sama er uppi á teningnum með lægri þrep skattstigans. Þar ætti 23% að koma í stað 26% og 15% í stað 18%. Með sams konar útreikningi ætti skattprósenta félaga að verða 40% í stað 48% eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Benda verður jafnframt á, að lækka verður útsvarsprósentuna og sjúkratryggingagjaldið til að komast hjá skattþyngingu við upptöku staðgreiðslukerfisins. Ekki hefur heyrzt um lagabreytingar í þá átt ennþá.”

Sveinn Jónsson lætur ekki sitja við þessar aðvaranir einar í nýlegri blaðagrein um málið. Hann bætir við:

“Allar líkur eru á því, að þegar hæsta tekjuskattaprósentan er komin í 34% muni sú skoðun fara að heyrast hjá þeim forustumönnum okkar, sem skattglaðastir eru, að þetta sé ósköp lág prósenta og lægri en menn hafi áður átt að venjast. Enginn geti því kippt sér upp við það, þótt prósentan sé hækkuð lítillega vegna aukinnar tekjuþarfar ríkissjóðs.

Verði farið að leika slíkan leik, má búast við því, að hæsta tekjuskattsprósenta verði fyrr en varir á ný komin í 40% með þeirri gífurlegu aukningu skattbyrðar, sem af því mundi leiða.”

Sveinn bendir á, að forustumenn okkar hafi jafnan á reiðum höndum einfalda lausn á svokölluðum “fjárhagsvandamálum” opinberra aðila. Þeir auka skatta til að mæta aukinni “fjárþörf”. Sveinn telur hættu á, að staðgreiðslukerfið verði notað sem tæki í þessum leik.

Einnig bendir Sveinn á, að núverandi skattstigi samsvari því, að tekjuskattur einstaklinga sé jafngildi 90% söluskatts á vinnu og birtir hann töflu með útreikningum því til sönnunar. Síðan segir hann:

,,Fráleitt er að hækka núverandi 90% söluskatt á vinnulaun. Þvert á móti þarf án tafar að stíga fyrsta skrefið til lækkunar beinna skatta og stefna síðan að frekari lækkun þeirra í áföngum. Markmiðið þarf að vera, að hæsta skattþrepið, og þá er átt við samtölu allra beinna skatta, verði ekki hærra en 25% af brúttótekjum.”

Sérstök ástæða er til að vekja athygli á, að skattprósenta, sem greidd er að ári liðnu eftir 32% verðbólgu, er allt önnur en sú, sem staðgreidd er. Til þessa hefur ekki verið tekið nægilegt tillit í frumvarpinu um staðgreiðslu skatta, enda er það siður þjóðarleiðtoga að nota slíkar breytingar til að mæta aukinni “fjárþörf” hins opinbera.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið