Rifrildisþættir sjónvarps á sunnudögum væru skárri, ef minna væri þar af atvinnumönnum stjórnmála, einkum svokölluðum spunakerlingum af báðum kynjum, sem sigað er fram til að þvæla mál og gera þau óskiljanleg. Þær eru ræktaðar á námskeiðum hjá flokkunum og í ræðukeppni Junior Chamber. Markmið þeirra er að þvæla fyrir okkur gerðir og skoðanir þeirra sjálfra og formanna þeirra. Nóg er til af skemmtilegu og málgefnu fólki með fróðlegar meiningar, sem gætu lyft þáttum þessum upp úr hanaslag spunakerlinga úr stjórnarliði og stjórnarandstöðu. Hanaslagurinn selur ekki lengur þætti.