Spilaborg Hjörleifs hrunin.

Greinar

Sjöfn Sigurbjörnsdóttir borgarfulltrúi og Bragi Sigurjónsson orkuráð- herra felldu á einum fimmtudegi í síðustu viku spilaborgir Hjörleifs Guttormssonar, fyrrverandi orkuráðherra. Því er allt hans strit unnið fyrir gýg, sem betur fer.

Síðustu mínútur valdaferilsins notaði Hjörleifur til að skipa Rafmagnsveitum ríkisins að reisa orkuver við Bessastaðaá sem fyrsta áfanga síðari Fljótsdalsvirkjunar. Þessi ólöglega tilskipun eyðilagði um leið stuldinn á Landsvirkjun.

Bessastaðaá er merkilegt fyrirbæri í orkusögu landsins. Alþingi hafði á sínum tíma heimilað ríkisstjórninni að reisa þar vatnslítið orkuver. Sú heimild var fáránleg og alþingi til skammar. En sú heimild var til.

Ráðherra hafði hins vegar enga heimild til að ráðast í virkjun Bessastaðaár sem hluta af Fljótsdalsvirkjun. Það er nefnilega allt önnur virkjun en sú, sem alþingi hafði heimilað, mun stærri og vatnsmeiri. Og raunar ekki alveg eins vitlaus.

Nýju útgáfuna ætti raunar fremur að kalla Hólsvirkjun, enda átti bara lítið brot vatnsins að koma úr Bessastaðaá. Orkustofnun hefur tjáð sig um þessa útgáfu með svo skýrum hætti, að ekki verður misskilið:

“Sá kostur er dýrari en aðrir til öflunar raforku fyrir landsmenn.” Ennfremur: “Hólsvirkjun fellur ekki á eðlilegan hátt inn sem fyrsti áfangi Fljótsdalsvirkjunar”. En ráðherra tók bara ekkert mark á þessu.

Hjörleifur lét sér ekki nægja að taka ólöglega ákvörðun í óþökk Orkustofnunar. Þar á ofan afhenti hann verkið Rafmagnsveitum ríkisins þvert ofan í hinn umdeilda samning um ný eignahlutföll Landsvirkjunar.

Vinstri stjórnirnar hjá ríki og Reykjavíkurborg höfðu komið sér saman um að rýra helmingseign Reykvíkinga í Landsvirkjun og láta Laxárvirkjun hafa eignarhluta. Þetta átti meðal annars að bjarga fjármálum Kröflu.

Samkvæmt ákvæðum þessa samnings átti Landsvirkjun að verða raunveruleg landsvirkjun með einkarétti á öllum umtalsverðum orkubúskap í landinu. Þar með hefði Landsvirkjun, en ekki Rafmagnsveitur ríkisins, átt að reisa spilaborg Hjörleifs við Bessastaðaá.

Í Reykjavík var mikil andstaða gegn hinum nýju áformum um Landsvirkjun. Gagnrýnendur töldu, að með samningnum væri Reykjavík hálft í hvoru að gefa ríkinu völdin í Landsvirkjun, öflugu fyrirtæki, sem borgin átti einu sinni alein.

Frumhlaup Hjörleifs í andarslitrum ríkisstjórnarinnar varð til þess, að Sjöfn Sigurbjörnsdóttir gerðist fráhverf samningnum um Landsvirkjun í atkvæðagreiðslu í borgarstjórn. Þar með var hún komin í meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.

En svo var hinn nýi orkuráðherra, Bragi Sigurjónsson, ekki fyrr setztur í stólinn en hann ónýtti verk fyrirrennarans. Hann sagði heimildina vanta, peningana vanta og að ekki lægi svona mikið á. Allt var þetta laukrétt.

Þetta varð til þess, að Sjöfn snerist ekki alveg yfir til sjálfstæðismanna, heldur sat hjá í atkvæðagreiðslunni. Það nægði samt. Samningurinn um Landsvirkjun féll á jöfnum atkvæðum, til heilla fyrir Reykvíkinga.

Með nýjum herrum í ríkisstjórn á næsta ári má búast við, að enginn áhugi verði á orkuveri við Bessastaðaá og breyttum valdahlutföllum í Landsvirkjun. Spilaborg Hjörleifs Guttormssonar virðist því úr sögunni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið