Sólargeisli í miðsóknarmyrkri

Greinar

Stjórnarráð og aðrar stofnanir framkvæmdavalds ríkisins eru bákn, sem lifir sjálfstæðu lífi og hefur tilhneigingu til að magna vald sitt á kostnað annarra þátta þjóðlífsins. Þessa samþjöppun valdsins má sjá um heim allan, ekki aðeins í alræðisríkjum, heldur einnig í lýðræðisríkjum.

Í Bandaríkjunum spennti Nixon forseti bogann of hátt í viðleitninni við að efla vald Hvíta hússins og ráðgjafa þess. Hann beið ósigur á þessu ári og er nú á hröðu undanhaldi. Þar í landi er nú meira jafnvægi að myndast milli valdastofnana þjóðfélagsins.

Aðrar lýðræðisþjóðir hafa sumar hverjar ekki verið jafn lánsamar. Hjá þeim hefur miðstjórnarvaldið eflzt svo gífurlega, að lýðræðiskerfið hefur útvatnazt og stefnir í átt til alræðiskerfis. Þetta er eitt af alvarlegustu einkennum vestrænna ríkja nú á tímum.

Sums staðar hafa verið við völd stjórnmálaflokkar, sem hafa dreifingu valdsins á stefnuskrá sinni. Þeim hefur tekizt að hamla gegn miðsóknaraflinu og jafnvel að snúa taflinu við. Hér á landi tókst viðreisnarstjórninni á síðasta áratug að halda jöfnu í þessu tafli og hindra útþenslu ríkisbáknsins á kostnað annarra þjóðlífsþátta. Hlutdeild ríkistekna í þjóðartekjum hélzt óhreytt á þessu tímabili.

Síðustu tvö árin hefur orðið á þessu skörp breyting, enda eru flokkar miðstjórnarvalds setztir að völdum í þjóðfélaginu. Kúvendingin kemur meðal annars fram í því, að þáttur ríkisbúskaparins í þjóðarbúskapnum hefur aukizt úr um það bil 20% í um það bil 30%.

Með sama áframhaldi eyðileggur þessi þróun lýðræðiskerfið, því að hornsteinn þess er, að margar valdastofnanir haldi hver annarri í skefjum og hindri alræði einnar, framkvæmdavalds ríkisins. Lýðræðið lifir ekki á kosningarétti almennings einum saman.

Baráttan við miðstjórnarbáknið fer fram á mörgum sviðum. Það er unnt að efla sjálfstæði dómsvalds og löggjafarvalds ríkisins og gera þau óháðari framkvæmdavaldinu. Það er unnt að efla sveitarstjórnir og flytja vald frá ríkinu heim í héruð. Og það er unnt að draga úr afskiptum ríkisins af atvinnulífinu og leggja meiri áherzlu á jafnvægið í samskiptum launamanna og vinnuveitenda. Baráttusviðin eru raunar fleiri, en þetta eru þrjú af hinum mikilvægustu. .

Einn sólargeisli er sjáanlegur í þjóðfélagi okkar um þessar mundir, þrátt fyrir þróunina í átt til alræðis framkvæmdavalds ríkisins. Sveitarstjórnir landsins hafa ákveðið að stinga við fótum og reyna að snúa vörn í sókn í skiptingu valds hins opinbera. Samtök sveitarstjórna héldu um daginn tímamótafund í Hornafirði, þar sem einróma samstaða náðist um slíka stefnu.

Í ályktun sveitarstjórnarmanna kemur fram sú meginstefna, að veigamiklir þættir valds og verkefna hins opinbera verði fluttir frá ríkinu til sveitarfélaga og landshlutasamtaka þeirra. Sem dæmi um slík verkefni má nefna raforkudreifingu og heilsugæzlu, skyldunámsskóla og fjölbrautaskóla.

Þessi stefna mun vafalaust fá mikinn hljómgrunn á alþingi. Stefna valddreifingar á ítök í öllum flokkum, þótt Sjálfstæðisflokkurinn einn standi óskiptur að henni. Almenningsálitið mun stuðla að því, að stefna sveitarstjórnarmanna nái fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

Vísir