Viðræður framsóknarmanna og sjálfstæðismanna um myndun nýrrar ríkisstjórnar fóru vel af stað og hafa gengið snurðulaust síðan. Viðræðunefndir flokkanna vinna af kappi og halda sameiginlega fundi daglega og stundum tvisvar á dag.
Þessar viðræður benda til þess, að ótrúlega mikið samræmi sé milli sjónarmiða nefndarmanna, ekki sízt í því máli, sem mest hefur verið rætt, aðgerðum til bjargar efnahagslífinu.
Það er öllum aðilum þessara viðræðna ljóst, að atvinnulífið þarf að komast snarlega aftur á kjöl, ef Ísland á að vera áfram byggilegt land með batnandi lífskjör. Þeim er líka ljóst,að ekki dugir neitt kák, ef þessi árangur á að nást.
Varnarmálin virðast ekki heldur vera þröskuldur í vegi samkomulags. Báðir aðilar eru andvígir ævintýramennsku á því sviði. Má það vera til léttis öllum þeim, sem áhyggjur hafa haft af öryggi landsins á undanförnum árum.
Ekki síður er mikilvægt, að báðir aðilar virðast stefna í einlægni að því,.að ótímabært rof verði ekki á samstarfi þeirra, þegar búið er á annað borð að koma því á laggirnar. Þeir vilja beita hinum mikla þingmeirihluta sínum til að hefja varanlegt framfaratímabil.
Mörg undirstöðuatriði langtíma-framfara hafa enn ekki verið rædd ofan í kjölinn vegna þess að áherzluna hefur í fyrstu orðið að leggja á þau vandamál, sem mest eru aðkallandi. Er þó ljóst, að björgunaraðgerðir hinnar líðandi stundar verða til einskis, nema við taki endurreisn efnahagslífsins með vel smurðu atvinnulífi og afnámi ýmissa gamaldags fjötra, sem halda núna hagvexti í skefjum.
Þessari endurreisn þarf að fylgja gífurlegur sparnaður hins opinbera, að minnsta kosti meðan menn eru að reyna að draga úr mestu þenslunni og verðbólgunni. Óhjákvæmilegt er að skera niður opinberar framkvæmdir, þótt nytsamlegar séu. Það er ekki hægt að gera allt í einu og mörgu verður að fresta til þess að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum án nýrra og hækkaðra skatta.
Margvísleg önnur atriði þarf að ræða á fundum viðræðunefnda framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Varla er unnt að efna til varanlegs samstarfs, nema línur séu lagðar um endurskoðun stjórnarskrárinnar og endurbætur kosningalaganna, svo að dæmi séu nefnd. Ennfremur er ljóst, að þrátt fyrir sparnað hins opinbera verður að finna leiðir til að koma húsbyggingamálum unga fólksins í mun betra horf.
Um flest slíkra mála ætti ekki að verða neinn djúpstæður ágreiningur milli flokkanna tveggja. En þeir geta ekki látið hina sameiginlegu stjórnarstefnu hanga í lausu lofti. Nú þegar í þessum viðræðum þarf að fást samkomulag um meginstefnuna í þessum atriðum, þótt þau snerti ekki efnahagsvanda líðandi stundar.
Sem betur fer er ekki annað vitað, en að í viðræðunefndunum ríki fullur skilningur á, að ekki er hægt að hafa neina fljótaskrift á fyrirkomulagi stjórnarsamstarfs, þótt naumur tími sé til stefnu. Viðræðurnar munu halda áfram af fullum krafti um helgina og má vænta þess,að málin fari að skýrast um miðja næstu viku.
Jónas Kristjánsson
Vísir