Vaninn ræður sjálfsagt mestu um, hvar neytendur verzla. Þegar þeir hafa fundið stað, sem þeim líkar við, hætta þeir seint viðskiptum, þótt nýir og betri hafi komið til sögunnar, enda líklegast, að þeim sé ekki kunnugt um það.
Fjarlægðin skiptir ekki minna máli. Menn verzla helzt, þar sem þeir eiga leið, eða í nágrenni heimilanna, enda heldur það samgöngukostnaði niðri. Það er nefnilega dýrt að elta kostaboð og kjarakaup út um allar trissur.
Verð og gæði eru þó einnig farin að ráða töluverðu á síðustu árum. Fólk þjálfast í að átta sig á verðmun og gera innkaup í stórum stíl til að halda niðri samgöngukostnaði og tímamissi við að notfæra sér lága vöruverðið.
Vaxandi skilningur á gæðum hefur á síðustu árum komið í ljós í miklum uppgangi hinna beztu í hópi ýmissa sérverzlana, eins og bakaría og fiskbúða. Margir neytendur láta hvorki tíma né ferðakostnað aftra sér frá slíkum búðum.
Skilningur manna á verði og gæðum mundi eflast, ef frjálst verðlag væri hér á landi. Þeir eru því miður enn of vanir því, að vörur kosti alls staðar nokkurn veginn hið sama, svo að ekki taki því að kynna sér málin.
Frjálst verðlag þarf auðvitað að fara saman við fræðslu. Of dýrt er fyrir fólk að fara út um allt til að kynna sér misjafnt verð nýlenduvöruverzlana og misjöfn gæði bakaría og fiskbúða. Það þarf aðgang að upplýsingum.
Neytendasíða Dagblaðsins reið á vaðið á sínum tíma með ítarlegum verðsamanburði á ýmsum sviðum og í sumum tilvikum einnig gæðasamanburði. Sem betur fer hefur Verðlagsstofnun líka tekið upp þráðinn á þessu mikilvæga sviði.
Nýbirt könnun stofnunarinnar á snarlstöðum hefur vakið verðskuldaða athygli, enda kom þar í ljós skemmtilega mikill verðmunur á einföldustu hlutum. Neytendur eru líka þegar farnir að notfæra sér þessar upplýsingar.
Að vísu vantar þar ýmsa fyrirvara. Sumir dýrustu staðirnir í könnuninni veita þjónustu, sem kostar náttúrlega miklu meira en sjálfsafgreiðsla. Að vísu hefur ódýrasta veitingahúsið þjónustu og er undantekningin, sem sannar regluna.
Auk þess fjallaði könnunin í átta atriðum um drykkjarföng og átta atriðum um ýmsar tegundir brauðs, í tveimur atriðum um súpur og þremur atriðum um hamborgaralega fæðu. Eiginlegur matur var ekki á dagskrá könnunarinnar.
Hún sýnir vel, hvar ódýrast er að fá sér brauð og drykk. Hún sýnir ekki, hvar ódýrast er að borða venjulegan mat, heimilismat og sparimat. Sú hlið hefur hins vegar rækilega komið fram í veitingahúsaþáttum Vikunnar síðustu árin.
Kunnugum kemur þó ekki á óvart, að ódýrasta veitingahúsið er hið sama í báðum þessum könnunum. Það er Lauga-Ás, sem þar á ofan reyndist í könnun Vikunnar einnig vera með betri veitingahúsum landsins. Þar ráða menn, sem ættu að fá orðu.
Athyglisvert er, að síðasta verð- og gæðakönnun Vikunnar leiddi í ljós, að yfirleitt er bara eðlilegt, að í raunverulegum mat sé eitt veitingahús helmingi dýrara og betra en annað.
Í snarli ræður verðið hins vegar mestu, því að gæðin eru sumpart hin sömu og sumpart svipuð. Þar er helmings verðmunur út í hött. Enda má búast við, að sumir snarlstaðir lækki nú verð sín snarlega, könnuninni til vegsemdar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið