Ekki var Alþýðubandalagið lengi að skipta um andlit, er viðræður vinstri flokkanna um myndun ríkisstjórnar fóru út um þúfur. Allt, sem áður var hvítt, varð nú skyndilega svart.
Í vinstri viðræðunum var Alþýðubandalagið búið að fallast á tillögur sérfræðinga vinstristjórnarinnar um gengislækkun, frystingu kaupgreiðsluvísitölu og margar fleiri aðgerðir til kjararýrnunar. Alþýðubandalagið var ennfremur búið að fallast á, að ekki yrðu fyrirfram höfð samráð við Alþýðusambandið um þessar aðgerðir.
Um leið og stjórnarmyndunarviðræður þessar fóru út um þúfur, byrjaði Þjóðviljinn að froðufella út af væntanlegum íhaldsaðgerðum stjórnarinnar, sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn fóru að reyna að mynda.
Í þeim viðræðum náðist samkomulag um að stefna að svipuðum aðgerðum og alls ekki harkalegri aðgerðum en vinstri flokkarnir voru búnir að fallast á í sínum viðræðum. Munurinn var þó sá, að stjórnin, sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu, ákvað að hafa samráð við Alþýðusambandið og aðra aðila vinnumarkaðsins, áður en gengið væri frá áframhaldandi frystingu kaupgreiðsluvísitölu og hliðstæðum kjaraskerðingarþáttum björgunaraðgerðanna í efnahagsmálum.
Öll þessi úrræði, sem Alþýðubandalagið var búið að samþykkja, þegar það átti von á stjórnarsetu, urðu nú skyndilega hin verstu íhaldsúrræði, sem Þjóðviljinn bölvar látlaust þessa dagana. Svona snar hefur jafnvel Framsóknarflokkurinn aldrei verið í snúningum við að kúvenda stefnu sinni.
Alþýðuflokkurinn tók hægar við sér en Alþýðubandalagið. En hann stóðst ekki mátið í samkeppninni við Alþýðubandalagið og fór að reyna að yfirbjóða það í stjórnarandstöðunni. Öll kjaraskerðingaratriðin, sem Alþýðuflokkurinn var búinn að samþykkja í vinstri viðræðunum, eru nú orðin óalandi og óferjandi, af því að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skipa ríkisstjórnina en ekki Alþýðuflokkurinn.
Þessi skyndilegu sinnaskipti koma fram í broslegustu myndum. Benedikt Gröndal telur það þinghneyksli, að ráðherrar sitja nú í þingnefnd um. Hann forðast að minnast á, að vinstri flokkarnir gerðu í upphafi þessa aukaþings samkomulag um skipun þingnefnda í trausti þess, að ný vinstristjórn yrði mynduð. Þegar svo önnur stjórn var mynduð, var búið að kjósa í nefndir menn, sem enginn vissi fyrirfram um, að yrðu ráðherrar. Og hann getur þess ekki, að þetta aukaþing er senn á enda og að kosið verður að nýju í nefndir fyrir vetrarþingið.
Þetta er ómerkilegt mál. En hin skyndilegu sinnaskipti hafa skaðleg.áhrif á öðrum sviðum. Foringjar Alþýðubandalags og Alþýðuflokks róa nú í umboðsmönnum sínum í Alþýðusambandinu, verkalýðsrekendum sínum, að gera nú allt vitlaust í kjaramálunum, svo að björgunaraðgerðir stjórnvalda nái ekki tilgangi sínum. Þeir hafa þegar náð þeim árangri, sem sést í stríðsyfirlýsingu meirihluta stjórnar Alþýðusambandsins.
Óábyrgir stjórnmálamenn hafa löngum verið þjóðinni dýrir og verða það vafalaust áfram.
Jónas Kristjánsson
Vísir