Ástæðulaust er, að landsmenn sætti sig við að þola atvinnu- og tekjumissi til að veita Færeyingum efnahagsaðstoð. Ssamningarnir, sem að minnsta kosti tveir ráðherranna stóðu að við Færeyinga í fyrrakvöld, geta ekki þýtt annað en þungar byrðar á herðar Íslendinga.
Meginatriði er, að við höfum af engu að taka. Við þurfum sjálf að Þola skerðingu bæði þorsk- og loðnuveiða. Minnkun afla á Íslandsmiðum þyrfti að verða miklu meiri en verið hefur, eigi stoðum að vera rennt undir lífskjör þjóðarinnar í framtíðinni.
Því meira sem við gefum útlendingum, þeim mun minna höfum við í okkar hlut, sumpart með því að draga úr veiðum okkar, atvinnu og tekjum þegar í stað, sumpart með því að nær verður gengið fiskistofnum og aflinn verður minni í framtíðinni.
Því er glapræði hjá íslenzkum ráðamönnum að semja enn við útlendinga um veiðiheimildir hér við land þvert ofan í gefnar yfirlýsingar.
Samkvæmt samningnum á þorskafli Færeyinga hér aðeins að minnka um þúsund tonn á ári, úr sjö í sex þúsund, en heildarafli þeirra af bolfiski á samt að verða óbreyttur, sautján þúsund tonn. Þetta samsvarar ársafla fimm íslenzkra skuttogara, sem gæti verið uppistaða lífskjara í svo sem fimm íslenzkum sjávarplássum.
Meðan við þurfum að skerða loðnuafla á Íslandsmiðum, er Færeyingum enn gefinn kostur á að veiða sautján þúsund og fimm hundruð tonn af loðnu í stað þrjátíu og fimm þúsund tonna áður. Í stað þess sem loðnuafli Færeyinga minnkar, mega þeir nú veiða sautján þúsund og fimm hundruð tonn af kolmunna hér við land. Íslendingar eiga að fá að veiða þrjátíu og fimm þúsund tonn af kolmunna við Færeyjar, heimild sem sennilega verður okkur næsm gagnslítil.
Eins og DB greindi frá í gær telja margir þingmenn, að ráðherrarnir Benedikt Gröndal og Kjartan Jóhannsson hafi gert þessa samninga án nauðsynlegs umboðs frá ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarinnar, þar sem um svo mikið mál var að ræða. Eins og mál eru vaxin, er grundvöllur til, að þingmenn úr öllum flokkum hafi vit fyrir ráðherrunum og felli þessa smánarsamninga.
Yfirlýsingar Kjartans Jóhannssonar sjávarútvegsráð- herra á þingi Landssambands íslenzkra útvegsmanna fyrir skömmu voru aðeins túkaðar á þann veg einn, að ráðherrann mundi beita sér gegn endurnýjun á hvers konar samningum um veiðiheimildir til handa útlendingum hér við land. Við þetta hefur ráðherrann ekki staðið.
Íslendingum er vel til frænda sinna í Færeyjum. Margt vildum við fyrir þá gera, ef nauðsyn krefði. En nú er ekki tilefni til að veita þeim efnahagsaðstoð. Ekki verður annað séð en Færeyingar séu um margt efnahagslega betur í stakk búnir en við erum um þessar mundir.
Sárast mun Íslendingum þó þykja, að með veiðiheimildum til handa Færeyingum erum við óbeint að veita Bretum og öðrum þjóðum Efnahagsbandalagsins heimildir til veiða á Íslandsmiðum.
Bretar halda nefnilega áfram veiðum hér gegnum Færeyinga.
Meðan Færeyingar bera sig illa í Reykjavík og þrýsta fram veiðiheimildum, láta þeir þjóðir Efnahagsbandalagsins halda áfram veiðum í færeyskri landhelgi.
Þeir afhenda Bretum og Vestur-Þjóðverjum afla og hirða hluta hans aftur af Íslendingum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið