Byggðastefnumönnum þótti markverður árangur nást síðastliðið haust, þegar ákveðið var, að 2% fjárlaga ríkisins skyldu renna til Byggðasjóðs. Margir.þeirra hugsa sér samt, að þetta hlutfall megi hækka smám saman, eftir því sem árin líða og þjóðin verður ríkari.
En 2%-in segja ekki nema hluta sögunnar. Byggðastefnan kemur fram í ótal öðrum myndum og kostar ríkissjóð margfalt meira en þessi 2%. Þessar mörgu myndir byggðastefnunnar þarf að skrásetja og meta til fjár, eftir því sem við verður komið.
Hversu hlynntir sem menn eru byggðastefnu, hljóta þeir að verða að viðurkenna, að jafnan verði að vera til yfirlit um beinan og óbeinan kostnað við hana, svo að unnt sé að átta sig á stærð dæmisins hverju sinni.
Ríki og bæir greiða hvor sinn helming af byggingakostnaði skóla í þéttbýli. Úti á landsbyggðinni greiðir ríkið meira en helming af sumum byggingaþáttum skólanna og í sumum tilvikum allt upp í 100%.
Ýmsar framkvæmdir eru í sjálfu sér dýrari í strjálbýli, svo sem vegir, flugvellir, hafnir, rafmagn, sími, útvarp og sjónvarp, svo að dæmi séu nefnd. Þessi verðmunur kemur ekki fram í afnotagjöldum, af því að ríkið borgar hann.
Dreifing ýmissa mikilvægra vörutegunda, eins og olíu og sements, er greidd niður úti á landsbyggðinni með því að leggja á neytendur í þéttbýlinu. Er þetta gert með sérstökum verðjöfnunarsjóðum. Nýlega féll rafmagnið undir þennan þátt byggðastefnunnar.
Ýmsa smærri þætti tæki of langan tíma að rekja. Framkvæmdir við flugvelli úti á landi eru greiddar með því að leggja flugvallargjald á millilandaflugið frá Keflavikurflugvelli. Vegaskatti var haldið uppi á Suðurnesjavegi, unz varanlegt slitlag var einnig komið á Selfossveg. Af dísiljeppum í landbúnaði er felldur niður helmingur þungaskatts.
Undir byggðastefnu má einnig flokka ýmis forréttindi atvinnuvega strjálbýlisins. Þar á meðal eru styrkir og útflutningsbætur landbúnaðarins, svo og niðurgreiðslurnar, sem stuðla að mikilli framleiðslu í afmörkuðum búgreinum. Lánsfé fæst með meira eða minna sjálfvirkum hætti og lánin eru veitt með lægri vöxtum og til lengri tíma en þekkist hjá atvinnuvegum í þéttbýli.
Mikilvægasta byggðastefnan felst þó í hinum gróflega misjafna kosningarétti landsmanna. Sums staðar úti á landi hafa.menn fimmfaldan trompmiða, fimmfaldan kosningarétt á við íbúa Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis.
Deila má um, að hve miklu gagni þessi feikilega dýra byggðastefna hafi komið. Mikið af þessu fjármagni fer í súginn. Það er því full ástæða til að endurskoða byggðastefnuna og kanna, hvort ekki sé unnt að færa suma þætti hennar í skynsamlegra horf og leggja niður suma þætti hennar. Þjóðin hefur ekki efni á sjálfvirku stjórnleysi í byggðastefnu.
Jónas Kristjánsson
Vísir