Orkuþróun á Íslandi er að skýrast um þessar mundir eftir nokkurra ára millibilsástand í kjölfar Búrfellsvirkjunar. Athuganir á virkjunarstöðum eru svo vel á veg komnar, að senn verður unnt að gera samfellda orkuáætlun nokkuð fram í tímann.
Svo virðist sem virkjunarstaðir á Suðvesturlandi hafi á undanförnum árum haft algeran forgang að rannsóknum. Embættismennirnir hafa ráðið þessari þróun og stjórnmálamennirnir verið næsta máttlitlir gagnvart henni.
Menn standa nú andspænis þeirri staðreynd, að virkjun í Hrauneyjarfossi milli Sigöldu og Búrfells er að verða tilbúin til útboðs og að áætlanir um virkjun við Sultartanga ofan Búrfells og um gufuvirkjun í Hengli eru vel á veg komnar, meðan undirbúningur virkjana annars staðar á landinu hefur dregizt aftur úr.
Skýringin felst að verulegu leyti í því, að Landsvirkjun hefur haft töluverða forustu í orkumálunum og starfssvæði hennar er eingöngu á Suðvesturlandi.. En nú þegar samtenging orkuveitusvæða er í vændum, er nauðsynlegt að herða undirbúning virkjana utan Suðvesturlands.
Gunnar Thoroddsen orkuráðherra hefur tekið af skarið og lýst því yfir á Alþingi, að ákvörðun um virkjun á Norðurlandi, væntanlega virkjun Blöndu, verði tekin á undan ákvörðun um virkjun Hrauneyjarfoss og verði tekin þegar á þessu ári Þessi stefnuyfirlýsing er vel þegin og markar tímamót í orkuþróuninni.
Athuganir benda til þess, að virkjanir í Blöndu og við Hrauneyjarfoss og Sultartanga séu svipað ar að hagkvæmni, svo að engu á að vera fórnað, þótt Blanda fái forgang.
Hitt er svo sennilegt, að virkjun við Hrauneyjarfoss verði fyrr tilbúin en virkjun í Blöndu, sem varla verður starfhæf fyrr en árið 1982, þótt undirbúningi verði hraðað eins og kostur er. En Hrauneyjarfossvirkjun gæti verið tilbúin árið 1979, ef þörf krefur.
Fjöldi orkuvera og hraði virkjana fer eftir stóriðjuþróun næstu ára. Ef ekkert verður gert í þeim efnum, er hugsanlegt, að Sigalda, Krafla og Blanda nægi til almennrar notkunar og uppbyggingu húsahitunar í dreifbýli næsta áratuginn.
En auðvitað hvetur hækkað olíuverð okkur til að gera fleiri samninga um orkufrekan iðnað til að bæta gjaldeyrisstöðuna og auka tekjur í þjóðfélaginu. Virkjun Blöndu færi vel saman við stóriðjuver við Eyjafjörð, álver, áburðarverksmiðju eða annan hliðstæðan rekstur.
Samtenging orkuveitusvæðanna stuðlar verulega að því, að unnt sé að dreifa stóriðjunni um landið allt. Laxárvirkjunarsvæðið verður þegar tengt Landsvirkjunarsvæðinu, áður en Blönduvirkjun lýkur, svo að aðstæður fyrir stóriðju við Eyjafjörð ættu þá að vera orðnar góðar.
Frá velmegunarsjónarmiði þjóðarinnar allrar og frá byggðasjónarmiðum ætti einnig að vera æskilegt að stefna hið bráðasta að stórvirkjun og stóriðju á Austurlandi, þar sem skilyrði eru eins og bezt verður á kosið. En undirbúningur er enn svo skammt á veg kominn, að vafalaust er ára tugur í að orkufrekur iðnaður taki þar til starfa
Með markvissri orkuþróun á næstu árum má gera viðkvæmt efnahagslíf okkar miklu traustara og fjölbreyttara en nú er.
Jónas Kristjánsson
Vísir