Skipulagður skortur?

Greinar

Vinnslustöðvar landbúnaðarins framleiða feitt nýmjólkurduft til útflutnings á kostnað ríkissjóðs, einmitt á þeim tíma, er vart verður við skort á nýmjólk og einkum þó á smjöri.

Engin skynsamleg ástæða er fyrir skorti á mjólk og smjöri hér á landi. Neyzlunni á þessum vörum er haldið óeðlilega hárri með gífurlegum niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Samt er ekki drukkinn nema helmingurinn af mjólkinni, sem framleidd er. Hitt fer í vinnslu af ýmsu tagi, þar á meðal smjörgerð.

Framleiðsla mjólkur er að vísu nokkuð misjöfn eftir árstíðum. En það virðist lítil fyrirhyggja í að framleiða svo lítið smjör á sumrin, að hafa þurfi smjörvinnslu í fullum gangi yfir háveturinn, þegar mjólkin er minnst. Enn fráleitara virðist að dunda við framleiðslu nýmjólkurdufts að vetrarlagi.

Í þessu sambandi má líka benda á, að hér á landi er nýmjólkin höfð mjög feit, eða um 4%. Erlendis geta menn valið um 2% og 3% feita mjólk, sem inniheldur sama magn af eggjahvítuefnum og 4% mjólkin á Íslandi, en að sjálfsögðu miklu minna af fitu þeirri, sem hjartveikt fólk má vara sig á.

Ef neytendum væri gefinn kostur á fiturýrari mjólk, væri unnt að nota meiri fitu til smjörframleiðslu og hindra þar með, að landið verði smjörlaust á ofanverðum vetri.

Mjög erfitt er að trúa því, að ástand þessara mála stafi af heimsku stjórnenda vinnslustöðva og sölukerfis landbúnaðarins. Smjörskortur í landí, sem flýtur í mjólk, getur ekki stafað af misstökum einum saman. Eitthvað meira býr að baki.

Hafa verður í huga, að stjórnendum vinnslustöðva landbúnaðarins má vera sama, hvað þeir gera úr nýmjólkinni. Ríkissjóður ábyrgist þeim útflutning á 10% landbúnaðarframleiðslunnar, þannig að stöðvarnar fá nokkurn veginn fullt verð fyrir fituna, hvort sem hún er í formi nýmjólkur, smjörs, nýmjólkurdufts eða osta.

Vinnslustöðvarnar þurfa lítið sem ekkert tillit að taka til markaðarins. Þær eru ekki að gera út á markað neytenda, heldur ríkissjóð. Verðmismun afurða er eytt með niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum úr ríkissjóði.

Þar á ofan heyrast þær raddir úr röðum stjórnenda landbúnaðarins, að skorturinn á smjöri sýni, að landbúnaðinum sé ekki nægilega sinnt og að efla þurfi framleiðslu hans. Þar með læðist að sá grunur, að hér sé verið af annarlegum ástæóum að skipuleggja skort.

Hjá þjóð, sem drekkur ekki nema helminginn af nýmjólk sinni, ætti að vera til miklu meira en nóg smjör. Ef framleiðsla landbúnaðarins yrði of lítil, væri unnt að selja mjólkina með eðlilegu fitumagni, svo að meiri fita yrði afgangs til smjörgerðar. Þar á ofan væri unnt að draga úr niðurgreiðslum á þessum vörum til að beina neyzlunni í aðrar áttir.

Þegar stjórnendur vinnslustóðva og sölukerfis landbúnaðarins láta ekki framleiða á sumrin nægilegt smjör til vctrarins og eru að flytja út nýmjólkurduft, er full ástæða til að fá óvilhalla menn til aó kanna, hvað sé á seyði.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið