Skástu tillögurnar.

Greinar

Nýjustu tillögur ráðherra Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni um bráðar aðgerðir gegn verðbólgunni eru sennilega hið skásta, sem völ er á í stöðunni. Áherzla þessarar umsagnar er auðvitað á síðustu tveimur orðunum.

Gera verður greinarmun á djúptækum, varanlegum uppskurði atvinnulífs og þjóðarhags, svo sem Dagblaðið hefur oftsinnis lagt til, og á bráðabirgðafumi landsfeðra, sem ná aldrei heildarsýn yfir verkefni sitt.

Ríkisstjórnin vill ekki höggva á landbúnaðarhnútinn. Hún vill ekki hafa forgöngu um, að takmarkaðar auðlindir sjávarins verði nýttar á sem ódýrastan hátt. Hún vill ekki gera neitt raunhæft í að búa til jarðveg fyrir iðnað.

Henni er samt ekki alls varnað í hinum varanlegu málum. Hún hefur samþykkt verðtryggingu sparifjár. Í framhaldi af því er hún nú að fjalla um tillögur Seðlabankans um framkvæmd verðtryggingarinnar. Og hún er beittasta vopnið gegn verðbólgu.

Ríkisstjórnin er í þeim vanda, að hinn sjúklegi stjórnarandstöðuflokkur, Alþýðubandalagið, er í raun andvígur verðtryggingunni. Kemur sá flokkur þar fram sem sérstakur verndari fjárglæframanna.

Lúðvík Jósepsson stjórnar tregðu Alþýðubandalagsins á þessu sviði og talar gegnum Svavar Gestsson bankamálaráðherra, sem nú er að reyna að drepa málinu á dreif. Í rauninni verður að telja, að afdrif málsins séu alveg óvís.

Vegna þessa er sérstök ástæða til að lofa það framtak Framsóknarflokksins að fella inn í verðbólgutillögurnar sérstakan lið um, að framkvæmd verðtryggingarinnar verði flýtt. Þar með hefur Framsókn hafið gagnsókn í málinu.

Á yfirborðinu deila Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið meira um, hvort banna skuli með lögum verkföll til áramóta. Alþýðubandalagið segist alveg andvígt þessari tillögu Framsóknarflokksins. Bilbugur hefur samt komið í ljós.

Á fundi í Alþýðubandalaginu um daginn kom fram hliðstæð tillaga. Hún var felld, en sýnir þó, að raunsæjar hugmyndir eru til meðal ráðamanna bandalagsins. Og Alþýðubandalagið stendur að hvatningu ríkisstjórnarinnar til farmanna um frestun verkfalls.

Önnur atriði en þessi tvö, verðtryggingin og verkfallsbannið, ættu ekki að valda umtalsverðum ágreiningi í ríkisstjórninni. Báðir flokkar telja eðlilegt, að 3% grunnkaupshækkun verði almenn. Alþýðubandalagið vill þó þak á hana.

Framsóknarflokkurinn lagði til, að þak yrði sett á vísitölubætur, er laun fara yfir 400.000 krónur á mánuði. Alþýðubandalagið er sama sinnis, en vill þó hafa þakið örlítið lægra. Ekki ætti þetta að verða varanlegur ágreiningur.

Framsóknarflokkurinn er enn með hókus-pókus síðustu ára: Aukinn skyldusparnað hátekjumanna. Sú tillaga er auðvitað skárri en hugmyndir innan Alþýðuflokks og Alþýðubandalags um ný og hærri skattþrep.

Alþýðuflokkurinn hefur ekkert lagt til málanna nema kröfu um, að alþingi sitji áfram, unz ríkisstjórnin er komin að niðurstöðu um bráðabirgðaaðgerðirnar gegn verðbólgunni. Sú krafa kann að þrýsta deiluaðilum nær samkomulagi.

Ríkisstjórnin hefur nokkrum sinnum áður átt í alvarlegri ágreiningi, en samt haldið saman. Rétt er að veðja á, að hún geri það einnig nú, þótt einhverjar jarðhræringar verði því samfara.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið