Deilurnar um varið land voru á sínum tíma mesta hitamál íslenzkra stjórnmála. Mörgum hljóp þá svo mikið kapp í kinn, að orðbragð þeirra fór úr böndum. Mest bar á þessu í skrifum andstæðinga varins lands í Þjóðviljanum.
Orðbragðið var þó ekki meira en svo, að það nam samanlagt rúmum helmingi af orðbragði því, sem höfundur þessa pistils hefur einn sætt vegna skrifa um landbúnað. Var í þeim skrifum þó ekki vikið persónulega að nokkrum manni.
Enginn skynsamur maður nennir að höfða meiðyrðamál út af heitum hamsi af hvorugu þessu tagi. Menn verða eins og ritstjóri Dagblaðsins að taka tillit til þess, að um veruleg tilfinningamál er að ræða.
Óviðurkvæmileg harka í málarekstri aðstandenda Varins lands bendir til þess, að ekki sé lengur um ærumál að ræða, heldur tilraun til að gera sér málið að féþúfu.
Til þess hafa aðstandendur stuðning Hæstaréttar, sem hefur í dómum sínum sýnt stéttvísi íslenzkrar yfirstéttar. Þar í rétti finnst mönnum greinilega einstaklega ósvífið að vera með dónaskap við prófessora.
Undirréttardómar í meiðyrðamálum Varins lands voru eðlilegir. Þar var ómerkt það, sem ómerkja þurfti, án þess að úr því yrði umtalsverður stórbisness fyrir hina ærumeiddu.
Hæstiréttur hefur hins vegar þyngt þessa dóma verulega. Verður hver hinna dæmdu að sæta fjárútlátum, sem nema hundruðum þúsunda króna. Með þessari stéttvísi er Hæstiréttur á villigötum.
Aðstandendur Varins lands grípa síðan dóma Hæstaréttar með áfergju. Þeir láta bjóða upp eignir hinna dæmdu og reyna jafnvel að sölsa þær undir sig fyrir lítið brot af verðgildi þeirra.
Þegar Hæstiréttur stendur fyrir slíku ástandi í þjóðfélaginu, er orðið fyllilega tímabært að stofna málfrelsissjóð, svo sem gert hefur verið. Slíkur sjóður er eðlilegt svar við stéttvísi Hæstaréttar.
Engin ástæða er til að láta einstaklinga greiða hundruð þúsunda króna vegna nokkurra óvarlegra orða. sem falla í hita leiksins. Málfrelsissjóður er gagnleg vörn gegn slíkum fjárhagslegum ofsóknum.
Að vísu getur stjórnendum sjóðsins reynzt erfitt að velja verkefni við hæfi. Sum meiðyrðamál eru sjálfsögð, einkum út af vel skipulögðum dylgjum, sem oft má sjá í Þjóðviljanum.
Meiðyrðamál Varins lands voru hins vegar að verulegu leyti höfðuð út af óskipulögðum reiðilestri tilfinningamanna úti í bæ. Þau voru ómerkileg mál, verulega ofmetin af hálfu Hæstaréttar. Slík mál eru verðugt verkefni Málfrelsissjóðs.
Ef ritstjóri Dagblaðsins höfðaði mál út af jafn óskipulögðum reiðilestri tilfinningamanna í landbúnaði, væri fengið annað verkefni fyrir sjóðinn. Sem betur fer er ekki líklegt, að slík mál íþyngi sjóðnum.
Meðan aðstandendur Varins lands og stéttvísir dómarar Hæstaréttar eru á villigötum, er rétt að hvetja menn til að styðja Málfrelsissjóð.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið