Sjálfstæðisstjórn.

Greinar

Ljóst er að verða, að Alþýðuflokkurinn treystir sér ekki til að taka afleiðingum kröfu sinnar um þingrof og nýjar kosningar. Hann vill ekki sjálfur mynda tveggja mánaða minnihlutastjórn til að rjúfa þing og láta kjósa.

Þetta er léleg frammistaða. Þegar Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra hafði neitað að rjúfa þing fyrir Alþýðuflokkinn, stóð það næst Benedikt Gröndal að taka á sig ábyrgðina af að fylgja þingrofskröfunni á leiðarenda.

Stjórnmálaflokkarnir virðast sjúklega hræddir við að taka á stjórnvelinum í tvo mánuði. Það er eins og þeir álíti kjósendur svo vitlausa, að þeir fari að kenna slíkri ríkisstjórn um efnahagsöngþveiti, sem hlaðizt hefur upp á heilum áratug.

Tregða Alþýðuflokksins stafar þó fremur af því, að þingmenn hans telja sig ekki hafa tíma til að sitja á stjórnarskrifstofum að undirrita skjöl. Þeir telja sig hafa ærinn starfa í prófkjörum og kosningum næstu tvo mánuði.

Í þingflokki Alþýðuflokksins hallast margir þingmenn að utanþingsstjórn sem betri kosti. Sú stjórn eigi hvort sem er ekki að gera annað en að rjúfa þing og fá það jafnframt til að breyta lögum um úthlutun uppbótarsæta.

Jafnframt gefi slík stjórn öllum stjórnmálaflokkunum tækifæri til að beina kröftum sínum óskertum að prófkjörum og kosningabaráttu. Og ekki sízt geti þá allir flokkar gengið stjórnarábyrgðarlausir til kosninga.

Samt verður hugmyndin um utanþingsstjórn ekki erfiðislaust að veruleika. Hún nýtur að vísu líka nokkurs stuðnings í Sjálfstæðisflokknum, en þar eru líka margir harðlega andvígir henni. Vilja þeir heldur axla byrðina sjálfir.

Satt að segja er utanþingsstjórn einkar dapurlegur kostur. Hún væri siðferðilegur ósigur fyrir þingræðið í landinu. Hún mundi staðfesta útbreiddar skoðanir meðal almennings um getuleysi stjórnmálamanna.

Ekki verður heldur séð, að utanþingsstjórn megni að breiða neina sauðargæru yfir samstarf Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Hún yrði eins konar “viðreisnarstjórn” embættismanna, sem þessir tveir flokkar veldu.

Forseti Íslands mundi ekki hefja nokkurra vikna leit að hæfum embættismönnum. Hann mundi fá lista með hugmyndum frá formönnum Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks. Og kjósendur mundu komast að, hvernig í pottinn er búið.

Skiptir þá minnstu, þótt einn og einn embættismaður slæðist með úr röðum annarra flokka. Utanþingsstjórnin væri samt mynduð af flokkunum tveimur og skrifuð á þeirra reikning. Þeir gætu alveg eins myndað opinbera “viðreisnarstjórn”.

Skásti kosturinn í stöðunni er, að Sjálfstæðisflokkurinn taki að sér tveggja mánaða minnihlutastjórnina. Þar með væri vandinn alténd leystur innan veggja þingsins og þar á ofan með nægilegum hraða fyrir desemberkosningar.

Eins og áður er sagt stendur þetta verk Alþýðuflokknum nær. En það stendur líka nálægt Sjálfstæðisflokknum, sem hefur þegar á fyrsta degi lagt fram á alþingi tillögu um þingrof og kosningar.

Hver ætti líka að fara að kenna efnahagsöngþveitið tveggja mánaða stjórn, sem hefur ekkert annað umboð né verkefni en rjúfa þing og fá það jafnframt til að fallast á nýjar lagagreinar um úthlutun uppbótarsæta?

Fremur myndi Sjálfstæðisflokkurinn vaxa af því að gripa boltann, er aðrir flokkar hafa í hugleysi varpað frá sér.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið