Hin meginniðurstaða skoðanakönnunarinnar kemur minna á óvart, hin mikla fylgisaukning Sjálfstæðisflokksins. Hann er eini stjórnarandstöðuflokkurinn og nýtur þess einnig, að ríkisstjórnin er á kafi í margvíslegum vandamálum.
Athyglisvert er þó, að flokkurinn skuli á aðeins nokkurra mánaða stjórnarandstöðu hafa náð nærri öllu því fylgi, sem hann tapaði í kosningum sumarsins. Hann hefur nú endurheimt fylgið, er hann náði á öllu valdaskeiði síðustu vinstri stjórnar, sem var mjög óvinsæl.
Samkvæmt könnuninni hefur Sjálfstæðisflokkurinn aukið fylgi sitt úr 33% í 42%. Þessi aukning er að verulegu leyti utan Reykjavíkur og er nú svo komið, að flokkurinn er stærri utan hins gamla höfuðvígis en innan þess.
Könnunin sýndi fylgisaukningu flokksins í Reykjavík úr tæpum 40% í 41%, sem er afar lítið í samanburði við aðra landshluta. Þetta bendir til, að flokknum muni reynast mjög torsótt að ná aftur meirihluta í Reykjavík, þótt honum kunni að öðru leyti að vegna vel í stjórnarandstöðu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið