Sjálfskaparvítið mikla

Greinar

Liðin er sú tíð, er Ísland var í hópi örfárra ríkja, sem höfðu mesta þjóðarframleiðslu á hvern íbúa. Blómaskeiðið var á tíma viðreisnarstjórnarinnar. Þá komst Ísland meira að segja eitt árið í annað sæti á eftir Bandaríkjunum og skaut bæði Kanada og Svíþjóð aftur fyrir sig. Þetta var árið 1966.

Núna allra síðustu árin hefur hvert ríkið á fætur öðrn farið fram úr Íslandi í þjóðarframleiðslu á hvern íbúa. Fyrst voru það Sviss, Vestur-Þýzkaland og Danmörk, en síðan komu lönd eins og Noregur, Frakkland og Holland. Loks eru nú bæði Bretland og Finnland komin framúr Íslandi og Japan er í þann veginn að gera hið sama.

Með sama áframhaldi fer jafnvel Ítalía framúr Íslandi eftir eitt eða tvö ár. Svo virðist sem slík þróun sé óhjákvæmileg, því að allt sígur á ógæfuhliðina hjá okkur. Síðasta ár viðreisnarstjórnarinnar, árið 1971, jókst þjóðarframleiðslan mjög myndarlega eða um10%. Árið eftir,1972, hrapaði þjóðarframleiðsluaukinn niður í 6% og virðist á þessu ári ætla að fara niður í 3% samkvæmt áætlun Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar.

Hið versta við þetta er, að hér er um sjálfskaparvíti að ræða. Hin ytri skilyrði efnahagslífsins eru góð um þessar mundir. Aflamagnið jókst um 8% í fyrra og ætti að geta orðið svipað á þessu ári. Þar á ofan hækkar stöðugt verðlag sjávarafurða á erlendum markaði. Búizt er við, að það hækki um hvorki meira né minna en 25% á þessu ári, reiknað í erlendum gjaldeyri.

Það eru raunar hinar gífurlegu hækkanir á íslenzkum fiskafurðum, sem hafa bjargað landinu frá efnahagslegu hruni og tryggt fulla atvinnu. Mistök og ringulreið stjórnvalda hefðu ella kafsiglt þjóðarskútuna. Menn muna eftir því, hvernig ríkisstjórnin hélt innreið sína með því að rupla varasjóði efnahafslífsins og dreifa sumargjöfum á báða bóga. Næsta skref hennar var að hafa forgöngu um óraunhæfar kjarabætur, sem hún hefur æ síðan verið að reyna að ná til baka.

Fyrir bragðið hefur verið dúndrandi verðbólga síðustu misserin. Á tíma viðreisnarstjórnarinnar var árleg verðbólga að meðaltali12% eða svipuð og hún hafði verið allt frá þeim tima, er Ísland lenti í hringiðu síðari heimsstyrjaldarinnar. En í fyrra hoppaði verðbólgan upp í 15-l6% og í ár fer hún í 20% samkvæmt áætlun Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar. Er þar þó gert ráð fyrir, að verðbólgan taki nokkra hvíld síðari hluta ársins eftir æði fyrri hlutans.

Þessir erfiðleikar hafa tekið ríkisstjórnina á taugum, svo að hún hefur gert illt verra með sífelldum ráðstöfunum og tilskipunum til bráðabirgða í stað þess að stuðla að opnu og sjálfvirku efnahagskerfi í líkingu við þau ríki, sem hafa verið að fara framúr okkur í þjóðarframleiðslu á hvern íbúa síðustu misserin.

Það eru miklir peningar í umferð hér á landi og menn hafa það gott. Við lifum hátt í nútímanum á kostnað framtíðarinnar. Menn taka því ekki nógu vel eftir því, sem tölurnar sýna, að efnahagskerfið er mjög sjúkt undir niðri og að við höfum dregizt langt aftur úr nágrannaþjóðum okkar.

Jónas Kristjánsson

Vísir