Sigur langsum.

Greinar

Ríkisstjórninni er umtalsverður ávinningur að hinu nýja fiskverði, sem meirihluti yfirnefndar Verðlagsráðs sjávarútvegsins ákvað í fyrrakvöld. Þessi ákvörðun tryggir vinnufrið í sjávarútvegi næstu fimm mánuði.

Ákvörðunin er diplómatískur sigur fyrir oddamann nefndarinnar, Jón Sigurðsson, forstjóra Þjóðhagsstofnunarinnar. Nefndin klofnaði nefnilega ekki þversum eins og venjulega, heldur langsum.

Það voru fulltrúar sjómanna og sambandsfrystihúsanna, sem stóðu með oddamanni ríkisstjórnarinnar að hinu nýja fiskverði. Á móti voru fulltrúar útgerðarmanna og frystihúsa Sölumiðstöðvarinnar.

Einn fulltrúi kaupenda og einn fulltrúi seljenda stóðu þannig með oddamanninum og einn fulltrúi kaupenda og einn fulltrúi seljenda voru á móti. Þess vegna er engin leið að átta sig á, hverjir urðu undir, kaupendur eða seljendur.

Fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna höfðu áður staðið saman um, að lágmarkið væri 14% hækkun fiskverðs og hámarkstíminn til 1. marz. Að lokum stóð þó Ingólfur Ingólfsson, fulltrúi sjómanna, að 11% hækkun og gildistíma til 1. júní.

Að baki sinnaskiptanna liggja loðin loforð um félagslegar umbætur og hugsanleg skattfríðindi sjómanna, sem forsætisráðherra er sagður hafa gefið í kjölfar tveggja funda með Ingólfi.

Áður hafði verið nokkur hætta á óbeinu verkfalli á fiskveiðiflotanum, því að sjómenn höfðu af fulltrúum sínum verið hvattir til að skrá sig ekki, fyrr en nýtt fiskverð væri komið í ljós. Nú á ekki að vera neitt því til fyrirstöðu, að þeir skrái sig.

Þar með er vinnufriðurinn fenginn. Erfitt er að sjá, að útgerðarmenn geti andæft gegn niðurstöðunni, þótt hún leiði sennilega til taprekstrar á bátaflotanum.

Fulltrúi útgerðarmanna, Kristján Ragnarsson, kvartaði um, að venjuleg gögn frá Þjóðhagsstofnun um afkomu fiskveiðanna á liðnu ári og spá um afla og verðbreytingar hafi ekki komið, fyrr en búið var að taka efnislega ákvörðun um nýja fiskverðið.

Það er náttúrlega leiðinlegt fyrir oddamanninn sem hagfræðing og embættismann að knýja nýtt fiskverð í gegn með slíkum hætti, um leið og það er sigur fyrir hann sem stjórnmálamann.

En ástandið er víst þannig í efnahagslífinu, að það ruglar menn bara í ríminu, ef einhver heldur því fram, að tveir plús tveir séu fjórir. Úr slíkum reikningi fást ekki pólitískt framkvæmanlegar niðurstöður.

Eyjólfur Ísfeld Eyjólfsson, sá fulltrúi kaupenda, sem var á móti ákvörðuninni, hitti naglann á höfuðið, þegar hann sagði:“Þessi fiskverðshækkun er sízt meiri en þróun launamála og þó sérstaklega afkoma útgerðar gefur tilefni til. Hækkunin er þó verulega umfram greiðslugetu fiskvinnslunnar miðað við núverandi markaðsverð og gengi.”

Það var semsagt vitlaust gefið í spilinu. Sjálft gengið er rangt. En því má ekki breyta vegna rangrar gjafar í spilamennsku á öðrum sviðum þjóðlífsins. Hvergi mega tveir plús tveir vera fjórir, því að þá hrynur spilamennskan í heild.

Sennilega sætta allir málsaðilar sig við, að tveir plús tveir séu fimm í þessu landi. Við gerum ekki hærri kröfur til stjórnar efnahagsmála en að vinnufriður ríki, svo að enn megi láta reka á reiðanum í fimm mánuði í viðbót.

Þannig skilið er útkoman sigur fyrir ríkisstjórnina og oddamanninn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið