Sigur gegn sjósöltun.

Greinar

Heilbrigð skynsemi hefur unnið sigur á kerfinu. Sjávarútvegsráðuneytið hefur afturkallað hið fáránlega reglugerðarákvæði um, að salta skuli um borð í síldveiðiskipunum á vertíðinni, sem nú stendur yfir. Í tilkynningu ráðuneytisins um fráhvarfið segir m.a.:

“Vegna slæmrar reynslu af því að binda leyfi skilyrðislaust við söltun um borð í veiðiskipi hefur ráðuneytið ákveðið, að hér eftir skuli ofangreindum 42 bátum heimilt að landa þeirri síld, sem ekki er söltuð um borð, ísaðri í kössum til frystingar eða söltunar í landi.”

Og það sem meira er, ráðuneytið ber af sér ábyrgðina á hinum upphaflegu mistökum. Skrifstofustjóri sjávarútvegsráðuneytisins sagði í viðtali við Dagblaðið í gær: “Þetta hefði aldrei komið fyrir, ef við hefðum fengið að ráða… Við fengum ekki það verkefni að setja þessar reglur … Við embættismennirnir höfum aðeins hjálpað til að koma þessu í lag”.

Áður hafði verið upplýst, að Síldarútvegsnefnd bar ekki ábyrgð á vitleysunni, þótt hún hafi hlutverks síns vegna tekið að sér þætti af framkvæmdinni. Framkvæmdastjóri nefndarinnar varaði við hinni upphaflegu reglugerð og greiddi atkvæði gegn henni í nefndinni, sem falið var að semja reglugerðina.

Böndin berast því óþægilega að sjálfum fulltrúum þolenda reglugerðarinnar, fjórum af sex nefndarmönnum, fulltrúum sjómanna, yfirmanna á skipum og útgerðarmanna. Þeir virðast hafa samið og samþykkt reglugerð, sem var mjög andsnúin umbjóð endum þeirra og raunar óframkvæmanleg með öllu eins og reynslan hefur sýnt.

Eini fjölmiðillinn á Íslandi, sem hefur rakið gang þessa máls mjög rækilega frá upphafi, er Dagblaðið. Það skýrði frá því, að dauðri síld væri kastað í sjóinn vegna skorts á aðstöðu um borð í veiðiskipunum. Það skýrði frá því, að hvorki væri til aðstaða né mannskapur um borð í skipunum til að gera síldina að verðmætri útflutningsvöru.

Dagblaðið rakti rækilega gagnrýni sjómanna, útvegsmanna, fiskiðjumanna og síldarsölumanna á sjósöltuninni. Blaðið sagði, að ekki væri nægilegt að leyfa söltun um borð í skipum við bryggju, og krafðist þess, að söltun yrði leyfð í landi. Þessi barátta hefur nú borið árangur.

Að vísu hjó Dagblaðið óþarflega nærri sjávarútvegsráðuneytinu með því að skella skuldinni á embættismenn þess. Ábyrgðin virðist ekki liggja hjá skrifstofumönnum kerfisins, heldur hjá mönnum, sem áttu að vita betur vegna reynslu sinnar úr atvinnulífinu, nefndarmönnunum fimm, er reglugerðina sömdu.

En nú geta allir viðkomandi aðilar varpað öndinni léttar. Hið fáránlega ákvæði um söltun á sjó hefur verið numið úr gildi og heilbrigðri skynsemi hefur verið leyft að ráða ferðinni. Sem betur fer er kerfið á Íslandi ekki svo forstokkað, að það segi: “Reglur eru reglur” fram í rauðan dauðann.

Niðurstaðan er sigur fyrir sjávarútveginn, efnahag þjóðarinnar og frjálsa fjölmiðlun í landinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið