Sakharov er vel að friðarverðlaunum Nóbels kominn. Þessi sovézki kjarneðlisfræðingur nýtur virðingar um heim allan vegna baráttu sinnar fyrir frelsi og mannréttindum í heimalandi sínu. Hann hefur staðið sig eins og hetja gagnvart alráðu og illúðlegu stjórnkerfi Sovétríkjanna og fært mörgum löndum sínum von um, að mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna komist um síðir til framkvæmda í Sovétríkjunum.
Val Sakharovs er mikill sigur fyrir raddir frelsis og mannréttinda um heim allan. Það er mikill sigur fyrir stofnskrá og mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna. Það er tímabært mótvægi gegn vaxandi harðstjórn og grimmd stjórnvalda víðs vegar á jörðinni. Það er ennfremur þörf áminning þeim, sem telja hinar gömlu, frjálslyndu hugsjónir Vesturlanda úreltar í heimi ríkisdýrkunar og aflsmunardýrkunar.
Íslendingum er vel kunnugt um hinar erfiðu aðstæður Sakharovs og skoðanabræðra hans í Sovétríkjunum. Við fyrirlítum þá dýrkun alræðis og aflsmunar, sem meðal annars kemur fram í banninu við því, að faðir Valdimars Ashkenazy fái að heimsækja son sinn á Íslandi. Við dáumst að þeim mönnum, sem þora að opna munninn við slíkar aðstæður.
Jafnframt vonum við, að Nóbelsverðlaun Sakharovs verði honum ekki til aukinna óþæginda heima fyrir. Stjórn Sovétríkjanna mundi vaxa í áliti, ef hún léti þetta val sér að kenningu verða og gerði hvort tveggja í senn að auka mannréttindi í ríki sínu og að leyfa Sakharov að fara til Osló til að taka við verðlaununum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið