Þeir sem kenna eða þakka siðdegisblöðum úrslit kosninganna, skjóta nokkuð yfir markið, þótt þeir virðist vera í meirihluta meðal íslenzkra stjórnmálamanna. Sú staðreynd, að kjósendur höfnuðu öllum nýjum og nýlegum flokkum og veittu aðeins gömlu flokkunum fylgi sitt, sýnir, að þessar gömlu valdamiðstöðvar hafa enn töluverð áhrif á gang mála.
Annað síðdegisblaðið, Vísir, studdi meira að segja annan flokkinn, sem koltapaði, Sjálfstæðisflokkinn. Þessi stuðningur byrjaði hægt og rólega, en var orðinn töluvert þungur undir lokin. Um þetta má nefna ýmis dæmi.
Níu af hverjum tíu stjórnmálagreinum nafngreindra manna í Vísi drógu taum Sjálfstæðisflokksins beint eða óbeint. Fréttir blaðsins úr stjórnmálunum síðustu dagana lögðust á sömu sveifina, til dæmis forsíðufrétt blaðsins á föstudaginn af útifundi Sjálfstæðisflokksins.
Í leiðurum Vísis var Sjálfstæðisflokkurinn studdur, að vísu undir rós, unz komið var fram á síðasta dag, er blaðið tók beina afstöðu með höfuðmálum kosningabaráttu flokksins. Þess vegna er ekki hægt að segja, að Vísir hafi stuðlað að sigri Alþýðuflokksins, nema halda því um leið fram, að áróður blaðsins hafi haft neikvæð áhrif.
Dagblaðið vann ekki heldur að sigri Alþýðuflokksins. Vilmundur Gylfason skrifaði að vísu vikulegar kjallaragreinar og varð þjóðkunnur af. En hann var ekki eini höfundur slíkra greina. Alla tíð Dagblaðsins hefur verið mikil og jöfn dreifing stjórnmálaskoðana höfunda kjallaragreina.
Dagblaðið var engan veginn stikkfrí í kosningabaráttunni. Fyrst birti blaðið viðtöl við nokkur hundruð frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningunum. Síðan eltu blaðamenn Dagblaðsins alþingisframbjóðendur flokkanna á fundum þeirra um land allt til að segja frá málflutningi þeirra á hlutlausan hátt.
Einnig sömdu blaðamenn Dagblaðsins ýtarlegar greinar um sérkenni kjördæmanna, helztu atriði stjórnmálaþróunarinnar í þeim og kynntu svo og ævi og störf þeirra manna, sem taldir voru í líklegum baráttusætum.
Þessi hlutlausa og mikla þátttaka var nýjung í blaðamennsku hér á landi Og má vel kalla hana síðdegisblaðamennsku. Menn voru óvanir því að sjá á einum og sama stað gert jafn hátt undir höfði viðtölum við frambjóðendur allra flokka, frásögnum af fundum þeirra og beinum stjórnmálagreinum frambjóðendanna sjálfra.
Dagblaðið kann að eiga nokkra sök eða þökk vegna úrslitanna. Það er þá vegna þess, að blaðið gaf lesendum sínum, miklum meirihluta þjóðarinnar, tækifæri til sjálfstæðrar skoðanamyndunar framhjá flokkaveldinu. Menn létu ekki lengur einhliða flokksmálgögn ráða gerðum sínum.
Engan þarf að undra, þótt slík opnun stjórnmálanna og meiri árvekni kjósenda komi niður á duglausri og óvinsælli ríkisstjórn, hvort sem hún er til hægri eða vinstri. Engan þarf að undra, að þessi þróun leiði til sigurs flokks, sem fyrstur allra verður til þess að átta sig á hinum nýju straumum í hugsunum almennings.
Dagblaðið hefur átt þátt í að lina tök flokkanna á kjósendum sínum. Sú er ein aðild blaðsins að sigrum og ósigrum stjórnmálaflokkanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið