Í annað sinn hafa launþegsamtökin í landinu leikið taflinu í hendur ríkisstjórninni. Í fyrra skiptið fólust mistökin í tveggja daga allsherjarverkfalli gegn lögum um skerðingu verðbóta. 0g nú eru mistökin þau, að boðað hefur verið ótakmarkað útskipunarbann. Síðari afleikurinn kann að reynast hættulegri en hinn fyrri.
Ólöglega allsherjarverkfallið kom aðallega niður á kjörum almennings. Menn misstu af launum í verkfallinu. Meira máli skiptir þó, að afleikurinn festi í sessi kjaraskerðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Annars vegar sýndi hann ríkisstjórninni fram á, að hún tapaði ekki fylgi á hörkunni. Og hins vegar auðveldar kjaraskerðingin ríkisstjórninni að fást við efnahagsmálin.
Almenn óánægja var með tveggja daga verkfallið. Hún lýsti sér í tiltölulega lítilli þátttöku opinberra starfsmanna. Og hún lýsti sér einnig í hinni miklu hörku, sem ráðamenn Dagsbrúnar urðu að beita til að halda félagsmönnum sínum frá vinnu. Enda voru forustumenn launþegasamtakanna greinilega dasaðir og ráðvilltir, þegar upp var staðið.
Niðurstaðan var sú, að ríkisstjórnin hélt sínu. Það var vel þeginn sigur á kosningaári. Fyrst og fremst var það sigur Ólafs Jóhannessonar dómsmálaráðherra, sem hafði hvatt samstjórnarmenn sína til að sýna festu og jafnvel hörku í viðskiptum við andsnúin samtök launþega.
Löng sagnfræðileg reynsla er líka fyrir því, að upplausn á kosningatímum þjappar hinum þögla meirihluta saman að baki ríkisstjórnar. Við slíkar aðstæður verða margir hræddir og leita halda og trausts í ríkjandi valdakerfi. Ekki sízt kalla slíkar aðstæður óánægða fráhvarfsmenn aftur heim til föðurhúsa stjórnarflokkanna.
Á þetta reynir í útskipunarbanninu. Átökin munu nú hafa meira stjórnmálagildi en í fyrra sinnið, þótt ekki sé nema vegna þess, að skemmri tími er til kosninga. Í þetta sinn er enn auðveldara en áður að tengja aðgerðirnar flokkastjórnmálum í hugum manna.
Strax er komið í ljós, að útskipunarbannið hefur skapað klofning í alþýðusamtökunum. Alvarlegastir eru úfarnir, sem risnir eru með sjómönnum og landverkafólki. Ennfremur hafa komið í ljós svæðisbundnar efasemdir um, að rétt sé að hinum nýju aðgerðum staðið. Þannig virðist sem enn muni ekki takast að sýna fram á marktæka samstöðu almennings gegn kjaraskerðingarstefnu ríkisstjórnarinnar.
Þar á ofan hefur ríkisstjórnin fengið tækifæri til að mála verkamannasambandið á vegginn sem þjóðaróvin, er komi í veg fyrir gjaldeyrisöflun landsmanna. Þar með gefst ríkisstjórninni tækifæri til að kenna samtökum launamanna um efnahagsöngþveitið, sem hún á sjálf mesta sök á. Enginn vafi er á, að það tækifæri verður notað til hins ítrasta.
Þannig er unnt að leiða sterk rök að því, að hvatvísi ýmissa forustumanna launþegasamtaka muni hræða kjósendur svo, að stjórnarflokkarnir muni hala aftur inn verulegan hluta af fylginu, sem þeir hafa verið að tapa í fjögur óstjórnarár.
Spyrja má í lokin að því, hvort mistök launþegasamtakanna stafi af því, að í samtökum verkamanna hefur Guðmundur J. Guðmundsson leyst Eðvarð Sigurðsson af hólmi og í Alþýðusambandinu hefur Snorri Jónsson leyst Björn Jónsson af hólmi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið