Sextánföld byrði

Greinar

Forustumenn þrýstihópa landbúnaðarins eru orðnir svo vanir sjálfvirkri afgreiðslu forréttinda af hálfu Alþingis og ríkisstjórna, að gagnrýni á kerfi þeirra kemur þeim í opna skjöldu.

Í stað þess að flytja mótrök gegn gagnrýninni æpa flestir þeirra eins og stungnir grísir. Þeir láta eins og klerkar, sem hamast gegn villutrú og villutrúarmönnum, er efast um, að landbúnaðarkirkjan sé óskeikul.

Nokkrar undantekningar eru þó á þessu Benda sumir talsmenn aukins landbúnaðar á gjaldeyrisöflun greinarinnar og gjaldeyrissparnað.

Fyrra atriðið er alrangt, því að gjaldeyrisöflun og notkun landbúnaðarins stendur í járnum. Í fyrra notaði landbúnaðurinn gjaldeyri. fyrir 22ík milljónir króna og aflaði gjaldeyris fyrir næstum sömu upphæð með sölu niðurgreiddra afurða, svo og ullar- og skinnavöru.

Síðara atriðið er rétt að nokkru leyti. Innfluttar landbúnaðarafurðir mundu kosta þjóðina gjaldeyri. En fækkun starfskrafta í landbúnaði hlyti að hafa í för með sér aukningu starfskrafta í öðrum greinum, sem annað hvort spara gjaldeyri eða afla hans beinlínis.

Talsmenn landbúnaðarins benda líka á matvælaöryggi þjóðarinnar og á almennt gildi matvælaframleiðslu í sveltandi heimi.

En núverandi stefna síaukins landbúnaðar stuðlar ekki einu sinni að matvælaöryggi þjóðarinnar. Landbúnaðartækin mundu fljótlega stöðvast, þegar flutningar til landsins hafa stöðvazt.

Matarforðabúr þjóðarinnar eru hins vegar hinar vatnsaflsknúnu frystigeymslur fiskverkunarstöðvanna. Þannig er það fiskurinn úr sjónum, sem er undirstaða matvælaöryggis okkar, en ekki kjöt og mjólk.

Fokið er í flest skjól hjá talsmönnum þrýstihópa landbúnaðarins, þegar þeir eru farnir að nota sult þriðja heimsins sér til framdráttar.

Staðreyndin er nefnilega sú, að okkar landbúnaður tekur meira matarígildi frá útlöndum í formi áburðar og fóðurbætis en hann skilar til baka í niðurgreiddum matvælaútflutningi.

Mest notaða röksemd talsmanna landbúnaðarins er þó sú, að okkur sé ekki vandara um að styðja okkar landbúnað en nágrannaþjóðunum, sem styrki sinn landbúnað verulega.

Einkum eru það Norðmenn og Bretar, sem halda sínum landbúnaði uppi með styrkjum. Í þessum löndum getur samanlagður styrkur með niðurgreiðslum og öllu slíku inniföldu komizt upp í 300.000 íslenzkar krónur á hvern bónda. Hér á landi fer þessi upphæð hins vegar nokkuð yfir eina milljón króna á hvern bónda á þessu ári.

Enn meiri er munurinn, ef borið er saman, hvernig fyrirgreiðsla þessi lendir á herðum skattgreiðenda. Hér eru bændur fjórum sinnum fleiri á hvern skattgreiðanda en í Bretlandi. Skattbyrðin af völdum landbúnaðar er því ekki aðeins fjórum sinnum hærri en í Bretlandi, heldur sextán sinnum hærri.

Ekki er unnt að segja, að talsmenn eflingar landbúnaðar ríði feitum hesti frá tilraunum sínum til að verja mál sitt með hagfræðilegum rökum. Þeir ættu að halda sér við trúfræðilegu rökin.

Jónas Kristjánsson

Vísir