Sex mánaða ævi Dagblaðsins sýnir, að hrakspárnar og efasemdirnar, sem fylgdu blaðinu úr hlaði á sínum tíma, áttu ekki við rök að styðjast. Þótt blaðið hafi stundum naumlega sloppið fyrir horn, hefur flest gengið því í hag.
Reynsla þessara sex mánaða sýnir, að Dagblaóið er hvorki flokkspólitískt blað né innanflokkspólitískt. Það dregur hvorki taum einstakra þrýstihópa né einstakra stjórnmálamanna. Þetta hefur skapað traust almennings á heiðarleika blaðsins og gert því kleift aó festa rætur.
Upplagstölur dagblaðanna í febrúar sýna greinilega styrk Dagblaðsins, sem hefur fest sig varanlega í sessi sem annað útbreiddasta blað landsins á eftir Morgunblaðinu, sem kemur daglega út í 41.000 eintðkum að eigin sögn.
Um upplag allra hinna dagblaðanna í febrúar eru til nákvæmar tölur eftir teljurum prentvélanna. Þá kom Dagblaðið að meðaltali út í 22.108 eintökum, Vísir í 17.715 eintökum, Tíminn í 17.302 eintökum, Þjóðviljinn í 9.595 eintökum og Alþýðublaðið í 4.900 eintökum.
Dagblaðið jók forskot sitt að marki í febrúar, enda var það fyrsti mánuðurinn, sem blaðið gat komið út á réttum tíma dagsins. Þar naut blaðið þess, að andstæðingar þess höfðu reitt hnefann of hátt til höggs, þegar þeir ætluðu að koma því fyrir kattarnef.
Í janúar hékk líf blaðsins á bláþræði, þegar Vísismafían gleypti Alþýðublaðið og stofnaði til hræðslubandalags við Tímann og Þjóðviljann um að kála Dagblaðinu með því að neita því nánast fyrirvaralaust um prentun. Þetta tilræði í Blaðaprenti hf. mistókst gersamlcga.
Viðskipti Dagblaðsins við Blaðaprent höfðu lyft prentsmiðjunni mjög vel upp úr hrapallegum taprekstri, sem hún var komin í á miðju ári 1975. Eftir brottrekstur blaðsins var fjárhag prentsmiðjunnar teflt í tvísýnu á nýjan leik.
Samsærisblöðin sjá nú fram á að verða að greiða mun hærri taxta í prentsmiðju sinni, meðan Dagblaðið hrósar happi yfir að vera laust úr ljónagryfjunni og hafa lækkað prentkostnað sinn með eigin tæknibúnaði og viðskiptum við aðrar smiðjur.
Eina umtalsverða vandamálið sem Dagblaóið á nú við að stríða, er hin alvarlega seinkun á letri blaðsins. Við hófum í rúman mánuð þurft að notast við of smátt og fíngert bókalctur, sem reynist mörgum erfitt í lestri. Rétta letrið er í framleiðslu og verður væntanlega komið í gagnið fyrir mánaðamótin. Munu blaðinu þá enn bætast nýir lesendur.
Á liðnum sex mánuðum hefur Dagblaðið flutt almenningi ýtarlegustu og áreiðanlegustu fréttir af ýmsum þjóðfélagsvandamálum, sem dregin hafa verið fram í dagsljósið, þar á meðal hinum skipulögðu stórglæpum, sem varpað hafa skugga á sjálft þjóðfélagskerfið.
Dagblaðið hefur á þessum tíma barizt af einurð fyrir harðari stefnu í landhelgismálinu. Það hefur gagnrýnt dáðlitla ríkisstjórn harðlega fyrir óstjórn á efnahagmálum þjóðarinnar og fjármálum ríkisins.
Engir valdaaðilar í þjóðfélaginu hafa lengur tækifæri til að hindra, að Dagblaðið flytji almenningi upplýsingar um ástandið í þjóðfélaginu og skapi vettvang fyrir heiðarlegar þjóðmálaumræður.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið