Sérkennileg barátta

Greinar

Meirihlutinn í Reykjavík segist vera að falli kominn. Stærsti flokkur minnihlutans segist vonlaus um að bæta við sig manni. Annar flokkur hans segir það sér að þakka, sem vel sé gert. Og minnsti flokkurinn hefur tæpast haldið úti blaði né baráttu að undanförnu.

Kosningabaráttan í Reykjavík er vægast sagt sérkennileg í þetta sinn. Hún virðist vera rekin sem fræðigrein fremur en hin blindu og stjórnlausu slagsmál, sem áður tíðkuðust. Langskólagengnir og langreyndir sérfræðingar gæta þess vandlega, að allt sé á lágum nótum og fari ekki úr böndum.

Kosningabaráttan var líkust þessu árið 1966, þegar flestir flokkarnir komu fram eins og þeir væru með hálfan huga við þær. Árið 1970 hófst baráttan á svipaðan hátt, en þá biluðu taugar sumra á endasprettinum. Hin gamla harka lét á sér kræla í lok kosningabaráttunnar.

Ekkert bendir til, að neinar taugar muni bila í þetta sinn. Sérfræðingar flokkanna telja reynsluna mæla með lágum nótum í kosningabaráttu. Og ráðamenn flokkanna taka mark á sérfræðingum sínum að þessu sinni.

Efnisatriðin eru léttvæg í kosningabaráttunni. Meirihluti Sjálfstæðisflokksins býður ekki upp á neitt sérstakt höfuðmál að þessu sinni, hvorki gula, rauða né bláa byltingu. Og allt bendir til, að þetta sé með ráðum gert.

Svipað er uppi á teningnum hjá minnihlutanum. Hann kristallar ekki andstöðu sína í neinu höfuðmálefni, né beinir hann spjótum sínum að neinum aðalveikleika stjórnarfars meirihlutans.. Flokkar minnihlutans vilja greinilega ekki, að fólk telji skörp skil milli hans og meirihlutans.

Tölfræðilegir útreikningar á fylgisprósentum og fulltrúafjölda eru ær og kýr kosningabaráttunnar. Það eru hingað til einu atriðin, sem flokkarnir hafa reynt að hamra á. Þar af leiðandi er ekki von, að almenningur hafi mikinn áhuga.

Morgunblaðið sannar með tölum, að oft hafi munað sáralitlu í næstu kosningum á eftir velgengniskosningum. Í slíkum tilvikum hafi meirihlutinn nánast rambað á barmi falls. Þjóðviljinn sannar aftur á móti með tölum, að Alþýðubandalagið vanti svo mörg þúsund atkvæði í viðbótarfulltrúa, að vonlaust sé að fella meirihlutann.

Til þess að kóróna gamansemina birtir Tíminn svo lofgreinar um ýmsa þætti borgarmálanna, að því er virðist aðeins til að koma því á framfæri, að framsóknarmenn hafi átt hugmyndirnar og síðan stutt framgang þeirra hjá Reykjavíkurborg. Öðruvísi okkur áður brá, þegar allt var teiknað í svarthvítu!

Sérfræðingarnir virðast telja, og sennilega með réttu, að hinir óvissu kjósendur hafi hvorki áhuga á oflofi um gerðir meirihlutans né ósanngjarnri gagnrýni á þær. Ennfremur hafi þeir ekki áhuga á stórkarlalegum loforðum fram í tímann, hvorki af hálfu meirihluta né minnihluta.

Af baráttunni mætti ætla, að allt snúist um hóp þögulla kjósenda, sem helzt mundu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, ef þeir nenntu að kjósa. Hinum tölfræðilega menúett sérfræðinga flokkanna virðist helzt beint að slíkum hópi manna, til að fá hann annars vegar til að kjósa og hins vegar til að sitja heima.

Vonandi verða stjórnmálaflokkarnir þó ekki svo vísindalegir, að hefðbundin barátta deyi alveg út.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið