Fjölmiðlar hafa ekki sagt allan sannleikann um uppþot Serba í Kosovo. Þeir náðu á sitt vald dómhúsi í Mitrovitsa, sveitarfélagi Serba. Hröktu brott dómara Sameinuðu þjóðanna og hermenn Nató. Í gagnárás náði Nató húsinu aftur, setti aftur inn dómarana og tók með sér 50 fanga. Andófsmenn kveiktu í flutningabílum Nató og frelsuðu fangana. Eitt vantar í allar þessar fréttir, útkomuna. Hún var sú, að Sameinuðu þjóðirnar og Nató hrökkluðust aftur frá dómhúsinu og héldu yfir brúna yfir ána Ibar, sem skilur milli Serba og Albana í Kosovo. Serbar höfðu því sigur á Nató í þessum bardaga.
