Einhvern tíma á næsta aldarfjórðungi kemur að því, að Reykjavík verður fullbyggð. Borgin hefur takmarkað landrými, því að Kópavogur takmarkar vöxt hennar til suðurs og Mosfellshreppur til norðurs. Eina stóra svæðið í Reykjavík, sem enn hefur ekki verið skipulagt, er Korpúlfsstaða- og Úlfarsfellssvæðið.
Reykjavík hefur þanizt óvenju ört út að undanförnu. Hverfin í Breiðholti verða greinilega fullbyggð eftir um það bil fjögur ár í stað þeirra tíu ára, sem gert var ráð fyrir í aðalskipulagi borgarsvæðisins. Það reynist því væntanlega nauðsynlegt að hefja byggingar á nýja svæðinu við norðurmörk borgarlandsins þegar á árinu 1978 eða þar um bil.
Undirbúningurinn að skipulagi nýja svæðisins er óvenju vandaður. Kannaðir og kortlagðir hafa verið allir þættir náttúrufarsins, sem áhrif hafa á byggð, svo sem landslag, hæð yfir sjávarmáli, skjól, úrkoma, birta, útsýni og jarðvegsdýpt. Á kortunum má sjá, hvaða svæði eru hentug til hverrar tegundar af landnýtingu.
Þessu starfi er nærri lokið. Þegar gerðar hafa verið ýmsar aðrar athuganir, svo sem spár um mannfjölgun í borginni á næstu árum og áratugum, er hægt að hefja sjálft skipulag svæðisins. Ekkert ætti að geta hindrað, að skipulagi fyrstu hverfanna verði lokið í tæka tíð, þegar framkvæmdum í Breiðholti fer að ljúka.
Ráðamenn borgarinnar hafa unnið afrek í Breiðholti. Þeim hefur nokkurn veginn tekizt að láta þjónustuframkvæmdir borgarinnar koma í takt við uppbyggingu svæðisins, þótt fólk hafi byggt þar miklum mun hraðar en nokkurn gat órað fyrir. Borgarkerfið er ekki svo stirt í vöfum, að það geti ekki lagað sig að slíkum aðstæðum og flýtt sínum eigin framkvæmdum.
Engin ástæða er til að óttast, að Reykjavíkurborg hafi ekki sitt skipulag og undirbúning í lagi, þegar menn fara að byggja yfir sig á Korpúlfsstaða-og Úlfarsfellssvæðinu. Það verða allt önnur vandamál, sem menn horfast þá í augu við. Þau vandamál felast í því, að sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur standa þá andspænis þeirri skyldu að taka við allri fólksfjölgun svæðisins, þegar Reykjavík verður fullbyggð.
Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri benti nýlega á þann möguleika, að sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur gerðust aðilar að þróunarstofnun borgarinnar. Með þeim hætti gætu allar sveitarstjórnir Reykjavíkursvæðisins unnið sameiginlega og af miklum krafti að risavöxnu verkefni, fullbyggingu alls Reykjavíkursvæðisins. Með slíku afli er hægt að vinna verk, sem einstök sveitarfélög hafa ekki bolmagn til að vinna.
Það væri æskilegt, að þetta samstarf eða annað slíkt gæti eflzt sem fyrst. Sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur verða að vera vel undir það búin, að einhvern tíma á næsta aldarfjórðungi geti Reykjavík ekki lengur borið hitann og þungann af mannfjölguninni á svæðinu.
Til þess að sú breyting komi ekki eins og reiðarslag, þurfa sveitarfélögin umhverfis Reykjavík smám saman að efla getu sína til að úthluta lóðum, þannig að þau geti létt álaginu af Reykjavík skref fyrir skref á löngum tíma. Slíkt verður bezt gert með sameiginlegu átaki svæðisins.
Jónas Kristjánsson
Vísir