Sem sízt skyldi

Greinar

Á Vestfjörðum hagar þannig til undirbúningi næstu þingkosninga, að öruggir um þingsæti eru þeir, sem sízt skyldi, en hinir eiga í tvísýnu, sem fremur eiga erindi á alþingi Þetta má hugleiða nú þegar, úr því að fram eru komin öll framboð á Vestfjörðum, sem máli skipta.

Í leiðara Dagblaðsins á miðvikudag voru færð nokkur rök að því, að einungis þrír frambjóðendur væru í öruggum sætum á Vestfjörð um að þessu sinni. Það eru Matthías Bjarnason og Þorvaldur Garðar Kristjánsson hjá Sjálfstæðisflokknum og Steingrímur Hermannsson hjá Framsókn.

Fimm vonbiðlar eru um óvissusætin tvö. Þeir eru Gunnlaugur Finnsson hjá Framsókn, Karvel Pálmason óháður, Sigurlaug Bjarnadóttir hjá Sjálfstæðisflokknum, Kjartan Ólafsson hjá Alþýðubandalaginu og Sighvatur Björgvinsson hjá Alþýðuflokknum.

Þeir þrír af fimm, sem miður munu mega sín í kosningunum, eiga samt nokkra von í óvissum uppbótarsætum. Allt eru þetta þingmenn núna, en ekki víst, að Vestfirðingar verði áfram svo heppnir að fá þrjá uppbótarþingmenn.

Oft hefur það komið fram í leiðurum Dagblaðsins, að Matthías Bjarnason hafi ekki staðið sig í embætti sjávarútvegsráðherra. Hann hefur stundum jafnvel virzt vera í meiri andstöðu við íslenzka fiskifræðinga en erlenda samningamenn um fiskveiðilögsögu. Og aðgerðir hans gegn ofveiði eru langt frá því að nægja.

Matthíasi hefur hins vegar tekizt að gæta hagsmuna Vestfirðinga Í sjávarútvegsmálum. Hann gæti því aukið fylgi flokksins í kjördæminu og stuðlað að því, að Sigurlaug nái kjördæmakosningu.

Álit Dagblaðsins á Steingrími Hermannssyni hefur ekki verið skárra. Hlutdeild hans í undirbúningi og stofnun Þörungavinnslunnar á Reykhólum er einkar ámælisvert dæmi um atkvæðaveiðar, sem kosta skattgreiðendur hundruð milljóna króna.

Vegur Steingríms minnkar líka meðal Vestfirðinga. En það kemur ekki niður á honum í öruggu listasæti, heldur á Gunnlaugi bónda í Hvilft. Óbeint yrði þó fall Gunnlaugs til réttmætrar lækkunar á gengi Steingríms.

Karvel hefur verið sjálfstæður og málhress þingmaður, sem nokkur eftirsjá væri að, þótt skoðanir hans séu svona upp og ofan. Þar að auki stendur hann að merkilegri tilraun til óháðs framboðs, sem gaman væri að tækist, öðrum til eftirbreytni.

Sigurlaug hefur líka, en í smærri stíl, sýnt nokkurt sjálfstæði á þingi og staðið sig þar betur en margur karlinn.

Kjartan er að verða einn helzti forustumaður Alþýðubandalagsins og á sem slíkur erindi á alþingi, þótt ekki sé hann skemmtilegur þingmaður.

Sighvatur hefur unnið sér það til ágætis að hafa efnt til harðari hvassviðra á alþingi en lengi eru dæmi til um. Í von um fleiri slík hvassviðri er óhætt að mæla með framhaldi á þingsetu hans.

Þótt allt þetta fólk komist á þing, verður að segjast, að öll eru andlitin gamalkunnug og einmitt þess vegna ekki líkleg til að auka núverandi veg alþingis, sem flestum þykir sorglega lítill.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið