“Fyrir tæpum 30 árum var land hér um sveitir friðað til varnar sauðfjárveiki, og fé skorið niður. Á þessum sauðlausu árum gerðist það undur að óvænt daungun kom í holtin. Hver vitund sem upp kom úr jörðinni fékk að lifa og náttúran var hamingjusöm í von um að svöðusár hennar fengju að gróa. Á þessum árum mátti sjá grænu geirana í Esjunni hækka …”
Þannig 1ýsir Halldór Laxness í nýútkominni árbók Ferðafélags Íslands breytingum á gróðri Í Mosfellssveit. Nokkru síðar í sömu grein segir hann: “Þessi sauðlausu sumur kom mér á óvart að finna á tveim stöðum hér í landinu birkigræðlinga, sem höfðu risið úr frækorni í jörðinni, tveir sprotar í Lángholtinu auk sprota á valllendisbarði í Skógarbríngum. Eftir að sauðskepnunni var hleypt á landið aftur hef ég hvergi séð örla á birkisprota á víðavangi hér í nágrenni.”
Ferðalangar í eyðihéruðum hafa sömu sögu að segja. Hvarvetna tekur gróðurinn hraustlega við sér, þar sem ábúendur hafa slátrað sauðfé sínu og horfið til atvinnuvega nútímans á mölinni. Mest er þetta áberandi á stöðum, sem lítið hafa verið nýttir sem afréttaland, svo sem á Hornströndum. Fullyrðingar talsmanna sauðfjárræktar um góð áhrif sauðfjár á gróður eru hrein öfugmæli í fullu samræmi við ríkjandi landbúnaðarstefnu.
Þar sem sauðfénu sleppir, taka við plógar og skurðgröfur. Í einu af ritum Landverndar er áætlað, að 140 þúsund hektarar af gróðursvæðum landsins hafi verið þurrkaðir. Þessar framkvæmdir hafa valdið verulegri breytingu á gróðurfari og mikilli hættu á uppblæstri og landeyðingu.
Í fyrrnefndri árbók Ferðafélagsins lýsir Þórarinn Guðnason örlögum Landeyjamýranna: ” … heljarmikill skurður var grafinn skammt fyrir ofan Gljábakkana og mýrarvatninu veitt vestur á bóginn og burt. Gljáin þornaði upp og ein plágan tók við af annarri, því að nú fauk sandurinn á þann gróður, sem skurðurinn hafði bjargað úr klóm svakkans.”
Sumir hafa orðið til þess að fullyrða, að landið þoli ekki hið gífurlega álag, sem stefna skefjalausrar aukningar landbúnaðarframleiðslu felur í sér. Við sjáum hvarvetna dæmi þess, hvernig náttúra landsins er blóðmjólkuð undir yfirskini landnýtingar. Allar tekjur landbúnaðarins mundu ekki nægja til að greiða þann auðlindaskatt, sem hæfilegur væri.
En sums staðar eru enn vinjar, svo sem Halldór Laxness lýsir í Ferðafélagsbókinni: “En rétt norðanvið Hryggina nýt ég þeirrar síendurteknu ánægju að finna Illaflóa, sem liggur samhliða Esjunni en hérnamegin Leirvogsár, í skjóli af hæðum og allur á lángveginn og má heita guðs mildi að skurðgröfumenn skuli ekki hafa rekið í hann augun: en Illiflói er svo blautlendur ,að nálgast forir. Þar er mikið himnaríki fugla frá því snemma á vori og oft glatt á hjalla, þegar þessir tónmeistarar eru komnir heim að halda konserta … “
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið