Norðmenn eru farnir að átta sig á, að viðhorf Íslendinga til Jan Mayen deilunnar eru miklum mun harðari en þeir héldu fyrr í sumar, þegar undarleg viðtöl við Benedikt Gröndal höfðu birzt í norskum dagblöðum.
Þar á ofan eru fjölmargir Norðmenn orðnir þeirrar skoðunar, að þeim beri ekki að mæta hinum íslenzku sjónarmiðum af fullri hörku. Til þess skipti hafið umhverfis Jan Mayen Norðmenn of litlu máli og Íslendinga of miklu.
Höfundur þessa leiðara hafði nýlega gott tækifæri til að ræða þessi mál við ritstjóra norskra dagblaða, bæði frá Osló og bæjum á vesturströndinni. Þessir menn áttuðu sig greinilega á sjónarmiðum Íslendinga.
Þeir telja ekki lengur, að Íslendingar geti hugsanlega sætt sig við miðlínu milli íslenzkrar og janmayenskrar efnahagslögsögu. Og þeir telja ekki lengur, að Íslendingar fallist með ákveðnum skilyrðum á norska efnahagslögsögu við Jan Mayen.
Þeir vita, að Íslendingar hafa þegar fært efnahagslögsögu sína út fyrir miðlínu í átt til Jan Mayen. Þeir vita, að Íslendingar eru andvígir norskri efnahagslögsögu við Jan Mayen. Og þeir vita, að Íslendingar gera tilkall til réttinda á Jan Mayen og í hafinu umhverfis eyna.
Þessi nýja þekking byggist á því, að upp á síðkastið hafa norsk blöð birt endursagnir af íslenzkum blaðaummælum og greinar eftir Íslendinga um þetta mál. Þetta hafa norsku dagblöðin gert að eigin frumkvæði.
Okkur er í hag slík dreifing í Noregi á þekkingu á hinum raunverulegu ágreiningsefnum málsins. Erfitt er að semja við aðila, sem heldur, að við séum linari en við erum í rauninni. Mun auðveldara er að semja, þegar hann áttar sig á, um hvað er hægt að tala og hvað ekki.
Um helmingur hinna norsku ritstjóra var andvígur sjónarmiðum Íslendinga. Einkum voru þar í hópi ritstjórar hinna áhrifameiri dagblaða. Við slíku er ekkert að segja, því að þjóðleg viðhorf hljóta að liggja þar í augum uppi eins og hér.
Hins vegar var athyglisvert, að hinn helmingurinn taldi, að Norðmönnum bæri ekki að berjast til þrautar við Íslendinga út af Jan Mayen. Þeir töldu, að Norð- menn hefðu vel efni á að gefa dálítið eftir í deilunni.
Þessir menn vissu, að norsk stjórnvöld eru knúin áfram af litlum sérhagsmunahópum í sjávarútvegi, sem þegar lifa á ríkisstyrkjum. Þeir vissu líka, að á Íslandi er sjávarútvegurinn hins vegar undirstaða nútíma þjóðfélags.
Sumir skömmuðust sín meira að segja fyrir vinnubrögð og stefnu norskra stjórnvalda í Jan Mayen deilunni. Þeir töldu eins og Dagblaðið, að hún hefði siglt offari í samningaviðræðum við Íslendinga og af litlu tilefni.
Þegar sanngirni af þessu tagi er farin að síast út í Noregi, á svipaðan hátt og gerðist í Bretlandi í þorskastríðunum, er kominn tími til að efla um allan helming miðlun upplýsinga af hálfu Íslands.
Dagblaðið hefur áður lagt til, að Helgi Ágústsson í utanríkisráðuneytinu, sem náði á sínum tíma ágætum árangri í samskiptum við brezka fjölmiðla, verði nú sendur til Noregs til að efla samskiptin við norska fjölmiðla.
Ef fjölmennir hópar í Noregi fara að telja norskar eftirgjafir í Jan Mayen deilunni koma til greina, er grundvellinum kippt undan fyrri frekju norskra stjórnvalda. Sjálfsöryggi norskra samningamanna hlýtur að minnka, þegar stuðningurinn rennur út í sandinn heima fyrir.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið