Báðir stjórnarflokkarnir hafa nú að baki aðalfundi sína, sem hafa einkennzt af eins konar “drengskap, einhug og baráttugleði” eins og Tíminn lýsti fundi sinna manna fleygum orðum í fyrirsögn á forsíðu.
Þessir fundir voru báðir friðsamir og treystu stöðu valdahópanna, sem flokkunum ráða. Menn muna enn, að ýmsar umdeildar athafnir ráðherra og ráðamanna Framsóknarflokksins urðu þeim ekki til áfellis á miðstjórnarfundi flokksins í lok marz.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi var svipað uppi á teningnum. Þar treysti flokkseigendafélagið, sem gárungar kalla nú Bilderberg-hópinn, tök sín á flokknum. Ráðamenn beggja flokka sjá því fram á innanflokksfrið á næstunni.
Báðir þessir aðalfundir voru íhaldssamir, eins og bezt sést af stefnuskrám þeim og yfirlýsingum, sem fundirnir samþykktu. Sem dæmi má nefna, að í Sjálfstæðisflokknum er búið að kaffæra hugmyndir um breytta landbúnaðarstefnu, sem komu fram í ályktun næsta landsfundar á undan. Nýja stefnuskráin í landbúnaði er aðeins bergmál af stefnu Framsóknarflokksins.
Hvorugur flokkurinn hefur litið við hugmyndum um auðlindaskatt og skipulega nýtingu fiskimiðanna á ódýran hátt. Hvorugur flokkurinn hefur litið við hugmyndum um aðskilnað fjármála og stjórnmála. Hvorugur flokkurinn hefur lítið við hugmyndum um minni og ódýrari landbúnað á Íslandi.
Þetta eru nokkur dæmi af mörgum um vel rökstuddar hugmyndir úr þjóðmálaumræðu síðustu missera, sem hafa alveg farið framhjá flokkunum tveimur. Enda skiptir svo sem ekki miklu, hvað stendur í yfirlýsingum og stefnuskrám, sem hvort sem er aldrei er staðið við.
Í rauninni eru þetta plögg, sem yfirstétt flokkanna tekur ekki hið minnsta mark á. Stjórnarstefna flokkanna verður áfram óháð fundayfirlýsingum þeirra eins og hingað til.
Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar mun áfram byggjast á úrræðum hinna íhaldssömustu hagfræðinga. Áfram verður reynt að halda við láglaunakerfinu. Og áfram verður reynt að þenja út ríkisbáknið. Hvort tveggja skapar valdastétt stjórnmálaflokkanna hámarksvöld gagnvart öðrum þáttum þjóðlífsins.
Samhljómurinn í aðalfundum stóru flokkanna tveggja bendir til, að traustur friður muni verða um helmingaskipti þeirra við stjórnvölinn fram á næsta ár. Það hefur dregið úr möguleikum á haustkosningum.
Enda er ljóst, að ytri völd flokkanna eru jafn ótrygg og innri völd valdastétta þeirra eru trygg. Í skoðanakönnun hefur komið í ljós, að helmingur kjósenda er ýmist reiður flokkunum eða óákveðinn í afstöðu til þeirra.
Stjórnarflokkunum nægir ekki innri “drengskapur, einhugur og baráttugleði”, ef kjósendurna vantar. Ráðamenn þeirra kæra sig sízt um að fá kosningar í hausinn á næstunni. Þeir munu því hanga saman í von um betra veður á ofanverðum næsta vetri.
Og aðalfundirnir hafa veitt þeim frið til þess.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið