Samstarf boðið og þegið

Greinar

Óvæntur samstarfsvilji um efnahagsmálin kom fram á Alþingi í fyrradag, þegar talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna viðurkenndu, að við mikinn vanda væri að stríða, og buðu fram þátttöku sína í viðureigninni við hann. Forsætisráðherra og viðskiptaráðherra þökkuðu þennan skilning og forsætisráðherra lýsti því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að samstarfstilboði stjórnarandstöðuflokkanna yrði tekið.

Jón Baldvin Hannibalsson, talsmaður Frjálslyndra og vinstri manna opnaði umræðurnar og lýsti efnahagshorfunum af enn meiri svartsýni en talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa gert og gagnrýndi harðlega óstjórnina á tímum vinstristjórnarinnar. Fór svo, að Lúðvík Jósepsson kveinkaði sér undan ummælum hans og kvað hann tala hreinlega eins og sjálfstæðismaður væri.

Jón vildi láta halda fiskverði í skefjum og auka fjárbindingu verðjöfnunarsjóðs. Hann vildi láta hækka skatta til að draga úr neyzlu, hækka vextina og lækka gengið, auk ýmissa annarra drákonskra aðgerða. Jafnframt yrði gætt hagsmuna hinna lægst launuðu til dæmis með því að lækka á þeim skatta. Þessar tillögur ganga flestar í svipaða átt og hugmyndir þær, sem hafa verið til umræðu meðal sérfræðinga og í stjórnarflokkunum.

Jón taldi, að umræður um þessi mál þyrftu að fara framfyrir opnum tjöldum, svo að fjölmiðlum gæfist tækifæri til að koma upplýsingum jafnóðum á framfæri við almenning. Sagði hann þetta heppilegri aðferð að svo stöddu en kappræður á þingi og líklegri til árangurs. Í framhaldi af því sagði hann:

“Við leggjum á það megináherzlu, að mótun heilbrigðs almenningsálits á aðsteðjandi vanda er í sjálfu sér veigamikill þáttur í tilraunum til úrbóta. Með því móti er og dregið úr þeirri hættu, að unnt sé, í krafti ófullnægjandi og villandi upplýsinga, að draga upp fyrir þjóðinni ranga mynd af ástandinu og þeim leiðum, sem í reynd eru færar til að forða því, að í algerum ógöngum lendi.”

Geir Hallgrímsson forsætisráðherra sagði við þetta tækifæri, að tilhögun samstarfs við stjórnarandstöðuna um efnahagsmálin yrði rædd við formenn þingflokkanna. Öll gögn yrðu birt opinberlega, sem máli skiptu, svo að þjóðin fengi rétta mynd af eðli vandans og tilgangi væntanlegra ákvarðana.

Þessar umræður á Alþingi í fyrradag gefa þjóðinni von um, að henni takist að komast úr erfiðleikunum. Ef flokkarnir eru fúsir til að leggja niður dægurþras og hefja í þess stað samstarf á breiðum grundvelli um víðtækar björgunaraðgerðir, er þegar unninn hálfur sigur.

Ekki er síður mikilvægt, að almenningur geti jafnóðum fylgzt með þróun mála. Hann verður nú að taka á sig nýjar byrðar ofan á þær, sem fyrir voru, hverjar svo sem hinar nýju ráðstafanir verða. Þess vegna er mikilvægt að leiða fólk í allan sannleika um stærð vandamálsins og lausnir þær, sem koma til greina.

Ef skilningur og samstarf ríkir á þingi, erum við stórum betur settir en ýmsar nágrannaþjóðir okkar í Evrópu, sem ráða ekki við efnahagsvandamál sín vegna óeiningar stjórnmálamanna.

Jónas Kristjánsson

Vísir