Alþýðubandalagið er á hröðu undanhaldi í vísitölustríði ríkisstjórnarinnar. Um það bera vitni ummæli alþýðubandalagsmanna í Dagblaðinu að undanförnu:
“Stjórnin verður að sitja”, sagði Guðjón Jónsson á mánudaginn. “Launþegar mundu gefa eftir sem þátt í áætlun um hjöðnun verðbólgu”, sagði Þórir Daníelsson á laugardaginn. Og einn ráðherra flokksins sagði: “Við stjórnum ekki einir.”
Hið sama kom fram á flokksráðsfundi Alþýðubandalagsins um helgina. Þar voru samþykktar tillögur um 6-7% hækkun launa um næstu mánaðamót í stað 14%, sem samningar gera ráð fyrir.
Alþýðuflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru sammála um, að launahækkunin megi vera 3,6%. Þar á ofan eru þeir að verulegu leyti sammála um hliðarráðstafanir, aðrar en þær, sem snerta landbúnaðinn.
Í prósentum munar litlu á tillögum Alþýðubandalagsins annars vegar og samstarfsflokka þess hins vegar. Óhætt er að slá því föstu, að ríkisstjórnin sé í þann veginn að ná samkomulagi um 4-4,5% launahækkun.
Krukk af þessu tagi var kallað kauprán, þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag voru í stjórnarandstöðu fyrir rúmlega hálfu ári. Og kauprán er það enn í dag, þótt stjórnarskipti hafi orðið.
Mismuninn á að bæta launþegum með sjónhverfingum af ýmsu tagi. Þar gengur Alþýðubandalagið lengst með tillögu um “að koma í framkvæmd félagslegum réttindamálum launafólks eftir nánara samkomulagi, sem metin yrðu í kaupi 2%”!
Sjónhverfingahugmyndir flokkanna þriggja eiga það sameiginlegt að vera á kostnað ríkissjóðs. Veigamestar eru þar skattalækkanir og niðurgreiðslur landbúnaðarafurða. Ekkert fé er til slíks í fjárlagafrumvarpinu.
Málið á sem sagt að leysa með því að lækka tekjur ríkisins og auka útgjöld þess. Stærðfræði af því tagi er einmitt helzta einkenni íslenzkra stjórnmálamanna. Lægsta planið er sameiningartákn þeirra.
Í rauninni eru stjórnarflokkarnir bara að koma sér saman um að framlengja líf ríkisstjórnarinnar um einn eða tvo mánuði. Þeir eru að koma sér saman um að láta samstarfið ekki stranda 1. desember á vísitölum og kaupi.
Það gera þeir með því að færa vandann yfir á fjárlögin. Þau eru venjulega afgreidd síðustu dagana fyrir jól. Vegna tímahraks að þessu sinni er hugsanlegt, að þau verði ekki afgreidd fyrr en í byrjun febrúar.
Fjárlagafrumvarpið kom seint fram og reyndist vera einkafrumvarp Framsóknarflokksins. Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið eru ósammála ýmsum liðum þess. Þeim vanda ýta stjórnarflokkarnir nú á undan sér.
Þegar kostnaðurinn af sjónhverfingum vísitölumálsins bætist við fjárlagafrumvarpið, er vandséð niðurstaðan. Þjarkinu innan ríkisstjórnarinnar verður tæpast lokið fyrir jól.
Með samkomulagi um kauprán leysa stjórnarflokkarnir engan vanda. Þeir fresta honum að eins. Þeir lofa að borga kaupránið með peningum, sem ríkið á ekki og þeir geta ekki útvegað.
Stjórnmálamenn hafa lítið svigrúm til þjóðþrifa, þegar ráðherrastólarnir eru þeim mikilvægari en nokkuð annað. Við slíkar aðstæður verða skammvinnar sjónhverfingar allsráðandi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið