Sami bransinn

Greinar

Bílasýningin var ágæt tilbreytni í þjóðlífinu. Þar komu menn til að sýna sig og sjá aðra, enda er sjaldgæfur annar eins samkomustaður þjóðarinnar allrar. Sýningar sem þessi eru fólki jafnan til mikillar upplyftingar og nokkurs fróðleiks. Bílasýningin gegndi því hlutverki með bezta móti.

Fyrir utan félagsskapinn höfðu menn svo not af því að sjá á einum stað bíla frá ótal framleiðendum og umboðsmönnum. Það skiptir meira máli en sjálfar nýjungarnar, sem voru raunar minni en sýnendur vildu halda fram. Og gaman var að kunnáttusömum sýningarbásum, til dæmis þar sem sýnt var inn í starfandi bílvél.

Tívolí sem þetta er að sjálfsögðu ágætt efni fyrir fjölmiðla. Lesendur vilja myndir og frásagnir, sem sýna mannlífið á staðnum, hinar fáu nýjungar, svo og hugvitasemi þeirra, er mest vönduðu til bása sinna.

Auðvitað hlýtur að vera peningalykt af sýningum sem þessari. Umboðsmenn nota tækifærið til að auglýsa vörur sínar í fjölmiðlum. Og þá er það sem fjölmiðlunum skrikar fótur á hálu svelli siðferðisins.

Gamalgróin flokksblöð taka upp gleðikonumálninguna, ganga milli peningamanna og bjóða fram blíðu sína. Þau bjóðast til að auglýsa vörur þeirra í viðtalsformi á ritstjórnarsíðum blaðsins. Erlendis heitir þetta “textreklame” og þykir afar aumt.

Blaðalesendur hafa tekið eftir þessum viðskiptum undanfarna daga. Birt eru viðtöl við umboðsmenn með myndum af þeim. Í viðtölunum er rækilega tíundað, hversu frábæra bíla þeir hafi á boðstólum og hversu einstaklega vel þeir henti íslenzkum aðstæðum.

Enginn minnsti vottur af gagnrýninni hugsun kemur fram í spurningunum. Hvergi í textanum er vikið frá skilyrðislausri hlýðni við umboðsmanninn. Gleðikonur vita, hvernig þær verða að haga sér í bransanum.

Í þessum textaauglýsingum er engin tilraun gerð til að þjóna lesendum hlutaðeigandi blaða, upplýsa þá um kosti og galla, gera samanburð á verði og skýra frá fyrri reynslu af þjónustu þessara umboðsmanna. Allt er skilyrðislaust rósrautt.

Morgunblaðið og Vísir eru svo þjálfuð í bransanum að þau selja blíðu sína hverjum einasta umboðsmanni. Þau gefa út þykk aukablöð, sem einungis hafa að geyma textaauglýsingar í bland við venjulegar auglýsingar sömu aðila og ekki einn stafkrók annan.

Þjóðviljinn er ekki eins tekjudrjúg gleðikona. Sennilega er hann ekki eins vinsæll af umboðsmönnum og Morgunblaðið og Vísir. En samt berst hann um á hæl og hnakka og fær dálítið af viðskiptum. Daglega birtir hann fleiri en eitt auglýsingaviðtal í ritstjórnartexta blaðsins.

Engan þarf að undra, þótt Morgunblaðið og Vísir telji bransann vera lífið sjálft. Erfiðara er hins vegar að gera sér í hugarlund gleðikonu með samanbitnar varir, þótt það sé raunar hlutskipti Þjóðviljans sem málgagns “sósíalisma” og “þjóðfrelsis”.

Kjarni málsins er auðvitað sá, að það er beint samband milli flokkspólitískra skrifa og textaauglýsinga. Hvort tveggja er sami bransinn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið