Saltverksmiðja á Reykjanesi fer senn að verða að veruleika eftir fimmtán ára athuganir. Gunnar Thoroddsen iðnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um stofnun hlutafélags til að reisa og reka tilraunaverksmiðju til framleiðslu á fínsalti og fisksalti, kalí, kalsíumklóríði og brómi.
Gert er ráð fyrir, að ríkisvaldið geti lagt fram nauðsynlegt hlutafé til að hleypa þessu verkefni af stokkunum. Jafnframt verður öðrum innlendum aðilum en ríkissjóði gefinn kostur á þátttöku í hlutafélaginu og þeir beinlínis hvattir til þess.
Í frumvarpinu er girt fyrir, að erlendir aðilar geti tekið þátt í framkvæmd málsins, þar sem sérstaklega er tekið fram, að óheimilt sé að selja árangurinn af starfsemi hlutafélagsins til annarra en íslenzkra aðila.
Athuganir á þessu máli hófust fyrir um 15 árum hjá þeirri skrifstofu, sem nú heitir Orkustofnun. Síðustu 10 árin hefur málið verið í höndum Rannsóknaráðs ríkisins. Sá maður, sem mest hefur starfað að málinu, er Baldur Líndal efnaverkfræðingur, sem kunnur er af undirbúningi Kísiliðjunnar í Mývatnssveit.
Boranir á Reykjanesi hófust árið 1968. Skýrslu Rannsóknaráðs var skilað árið 1972. Umsagnir verkfræðinga og hagfræðinga um þá skýrslu voru tilbúnar árið 1974. Allar þessar athuganir bentu til þess, að rekstur saltverksmiðju á Reykjanesi gæti orðið arðbær.
Undanfarna áratugi hafa ýmsir möguleikar verið athugaðir á nýjum iðnaði hér á landi. Áburðarverksmiójan og Sementsverksmiðjan voru fyrstu skrefin á þessari braut og síðan komu Kísiliðjan og álverið í Straumsvík.
Einnig hefur verið rætt um sykurvinnslu, þungavatnsvinnslu, hveitimyllu og stálbræðslu, svo að nokkur helztu dæmin séu nefnd. Erfitt hefur reynzt að koma slíkum hugmyndum um nýiðnað í framkvæmd, af því að íslenzk iðnfyrirtæki hafa yfirleitt verið gersamlega fjárvana.
Stundum hefur verið reynt að fá erlend fyrirtæki til að framkvæma hugmyndirnar. Þegar hinir erlendu iðnrekendur hafa svo kynnt sér aðbúnaðinn að iðnaði á Íslandi, höftin, skattana og annað arðrán ríkisins, hafa þeir yfirleitt sagt: Nei takk.
Álversmenn og karbítar bitu þó á krókinn, en gerðu það jafnframt að skilyrði, að lögum yrði breytt til að mynda eðlilegan grundvöll fyrir rekstur fyrirtækjanna. Þrátt fyrir slíkar breytingar er áhuginn ekki meiri en svo, að karbítsmenn eru nú önnum kafnir við að reyna að losana frá málmblendiverksmiðjunni fyrirhuguðu.
Í þjóðfélagi, sem hefur arðlausan landbúnað að æðstu hugsjón, er vitanlega tómt mál að tala um nokkra iðnþróun. Í slíku myrkri hljóta menn að fagna frumkvæði ríkisins að byggingu og rekstri nýiðjuvers á borð við saltverksmiðjuna. Ríkisframtak er betra en ekkert framtak.
En þessi ljósglæta minnir okkur jafnframt á þá dapurlegu staðreynd, að fjármunir þjóðarinnar eru svo ákaft notaðir til óhóflegrar samneyzlu, tilgangslausrar offramleiðslu í landbúnaði og rányrkju á fiskistofnum, að ekkert framtak er eftir til nýs iðnaðar, nema veikburða ríkisframtak.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið