Sætindi eru auglýst grimmt í sjónvarpi sem hollur morgunmatur. Til dæmis er Cocoa Puffs 48% sykur, ávísun á ótímabæra sykursýki og offitusjúkdóma. Þetta heimta börnin, sem horfa á sjónvarpsauglýsingar. Þetta láta foreldrarnir eftir þeim í samræmi við almenna uppgjöf þeirra í uppeldismálum. Sá tími mun senn koma, að bannað verði að selja sætindi undir því yfirskini, að þau séu morgunmatur. Sama er að segja um ýmis sætindi, sem Mjólkursamsalan selur undir því yfirskini, að þau séu mjólkurvörur. Einnig mun sá tími koma, að framleiðendur og höndlarar slíkra sætinda verði að þola sams konar málshöfðanir af hálfu fórnardýra og tóbaksfyrirtækin hafa sætt í Bandaríkjunum á undanförnum árum.