Ceausescu Rúmeníuforseti gæti auðveldlega misreiknað sig og gengið einu skrefi of langt, þegar hann stendur þráfaldlega og kerfisbundið uppi í hárinu á leiðtogum Sovétríkjanna.
Að mati þessara leiðtoga er hann friðarspillir hinn mesti. Á fundi Varsjárbandalagsins fyrir áramótin neitaði hann að undirrita samning um nánara hernaðarsamstarf og aukin völd Sovétríkjanna í bandalaginu.
Við það tækifæri sagði Ceausescu, að stríðshætta væri lítil og að tillögur Sovétríkjanna væru út í hött. Rúmenar hefðu ekki ráð á auknum herútgjöldum og mundu ekki taka þau á bakið.
Á sama fundi bandalagsins neitaði hann að undirrita yfirlýsingu um, að ráðamenn Kína væru stríðsæsingamenn. Raunar hefur hann árum saman reynt að vera hlutlaus í deilum ráðamanna Sovétríkjanna og Kína.
Þrisvar sinnum hefur Ceausescu farið í heimsókn til Peking. Í ágúst í fyrra tók hann á móti Hua, flokksformanni í Kína, og bakaði sér með því mikla reiði ráðamanna Sovétríkjanna, sem eru sjúklega hræddir við Kínverja.
Á fundi bandalagsins fyrir áramótin neitaði Ceausescu ennfremur að undirrita gagnrýni á friðartilraunir Bandaríkjanna í Miðausturlöndum. Raunar er Rúmenía eina Varsjárbandalagsríkið, sem hefur vinsamleg samskipti við Ísrael.
Rúmenía tók á sínum tíma ekki þátt í innrás Varsjárbandalagsins í Tékkóslóvakíu og fordæmdi hana raunar harðlega. Um langt skeið hefur Rúmenía neitað að hafa erlent herlið í landinu og neitað Varsjárbandalaginu um heræfingar í Rúmeníu.
Þegar Ceausescu kom heim af síðasta fundi Varsjárbandalagsins gerði hann allt, sem hann gat, til að auglýsa missætti sitt og ráðamanna Sovétríkjanna. Af ráðnum hug fékk hann bandalagsríkin til að kalla heim sendiherra sína frá Rúmeníu og til að hefja áróðursherferð gegn sér í fjölmiðlum.
Ceausescu hefur lengi reynt að sameina harðan stalínisma í innanríkismálum og hart sjálfstæði í utanríkismálum. Rétttrúnaður hans í innanríkismálum hefur vafalaust hingað til hindrað innrás Sovétríkjanna. En hvenær gengur hann of langt?
Sovétríkin réðust inn í Ungverjaland 1956. Þau réðust inn í Tékkóslóvakíu 1968. Hví skyldu þau ekki leika sama leikinn í Rúmeníu 1979? Munu ráðamenn Vesturlanda ekki líta undan og láta Sovétríkin hafa sitt fram, eins og í hin tvö skiptin?
Auðvitað er mikil hætta á innrás Varsjárbandalagsins í Rúmeníu. Það heldur hins vegar aftur af ráðamönnum Sovétríkjanna, að þeir vita, að í slíku stríði mundu hinir 22 milljón Rúmenar standa sem einn maður að baki Ceausescu. Innrásin yrði erfið.
Rúmenía hefur óneitanlega mikla sögulega sérstöðu í Austur-Evrópu. Hún er rómönsk eyja í slavnesku hafi. Hin fornu tengsl, tunga og menning, eru við Rómaborg en ekki Moskvu. Þetta magnar þjóðernistilfinningu Rúmena.
Ceausescu er einmitt að reyna að magna þessa tilfinningu, svo að þegnarnir gleymi því, að einstaklingsfrelsi er minna í Rúmeníu en í nokkru öðru ríki Varsjárbandalagsins og að lífskjör eru með þeim bágustu.
Hann notar deilurnar við Sovétríkin til að treysta völd sín heima fyrir. Það hefur honum tekizt. En hætturnar liggja við hvert fótmál, því að ráðamennirnir í Moskvu eru gamlir og taugaveiklaðir íhaldsmenn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið
