Róttækar tölur

Greinar

Nokkrir menn hafa kvartað opinberlega um, að róttækum skoðunum um landbúnað væri haldið á lofti í dagblaðinu Vísi. Gallinn við þessar kvartanir er, að það eru ekki skoðanirnar, sem eru róttækar, heldur hinar tölulegu staðreyndir um landbúnaðinn.

Um 10% Íslendinga starfa í landbúnaði og sjá fyrir um 40% af neyzluþörfum þjóðarinnar. Af Bandaríkjamönnum starfa um 5% í landbúnaði og sjá fyrir um 100% af neyzluþörfum sinnar þjóðar, þar sem útflutningur og innflutningur landbúnaðarafurða þar í landi stenzt nokkurn veginn á. Af þessum einföldu tölum má sjá, að bandarískur landbúnaður er fimm sinnum framleiðnari en íslenzkur landbúnaður.

Danmörk er ekki eins háþróað landbúnaðarland og Bandaríkin, en hefur þó tvisvar til þrisvar sinnum meiri framleiðni í þessari atvinnugrein en við höfum. Til staðfestingar þessari fullyrðingu verða hér borin saman annars vegar dönsk útflutningsverð eins og danska landbúnaðarráðið skráði þau í byrjun desember og hins vegar íslenzk heildsöluverð skráð á sama tíma. Alls staðar er verðið miðað við 1 kg.

Góður flokkur af dönsku nautakjöti kostar í íslenzkum krónum 214 krónur og svipaður flokkur af íslenzku kjöti kostar hér 291 krónu. Fyrsti flokkur af dönsku svínakjöti kostar 168 krónur meðan sami flokkur af íslenzku svínakjöti kostar 351 krónu.

Einnig er athyglisvert að bera dönsku verðin saman við íslenzka dilkakjötið, sem kostar 365 krónur óniðurgreitt. 45% ostur danskur kostar 214 krónur, sem er meira en helmingi ódýrara en íslenzki osturinn, er kostar 444 krónur óniðurgreiddur.

Verðmunurinn á smjörinu er enn meiri. Danskt smjör kostar 299 krónur meðan íslenzka smjörið kostar 802 krónur óniðurgreitt. Dönsku kjúklingarnir kosta 96 krónur,en íslenzkir kjúklingar 370krónur, sem er nærri fjórfalt verð. Dönsk egg kosta ekki nema 101 krónu, meðan íslenzk egg kosta 320 krónur.

Ekki er síður forvitnilegt að bera saman annars vegar íslenzkt smásöluverð og hins vegar danskt útflutningsverð að viðbættum flutningskostnaði og álagningu í heildsölu og smásölu á Íslandi, en án tolls. Gizkað er á, að með þessum hætti leggist 50% ofan á svína- og nautakjötið, 55% ofan á smjörið, 65% ofan á ostinn og kjúklingana og 100% ofan á eggin, sem væntanlega þyrfti að flytja flugleiðis.

Með þessum hætti mundi danskt kjöt verða ódýrara að meðaltali í íslenzkum búðum en niðurgreitt dilkakjöt og mundi slíkur innflutningur því spara ríkinu niðurgreiðslur á kjöti og lækka verðlag þar á ofan. Nautakjötið mundi kosta 321 krónu, svínakjötið 252 krónur og kjúklingarnir 158 krónur, meðan íslenzka dilkakjötið kostar 277 krónur fyrir utan 153 krónurnar, sem skattgreiðendur borga.

Enn rosalegri sparnaður yrði í smjöri, osti og eggjum. Danska smjörið mundi kosta hér 463 krónur og spara alveg niðurgreiðslur á smjöri, sem eru nú 377 krónur. Osturinn mundi kosta 353 krónur í stað 445 króna. Og eggin mundu kosta 202 krónur í stað 470 króna.

Jónas Kristjánsson

Vísir