Íslenzk reiðmennska hefur orðið fyrir rothöggi. Hún liggur í hringnum, búið er að telja upp í tíu og gestirnir eru farnir. Hún getur ekki einu sinni rökrætt, hvað kom fyrir hana. Þekktasta hestatímarit Evrópu, Cavallo, fór á heimsleika íslenzka hestsins í Hollandi. Notaði hörð orð um reiðmennskuna og birti myndir því til skýringar. Skeið og tölt eru illa riðin að mati sérfræðinga blaðsins. Hestarnir þjást og blóðgast jafnvel, sumir hoppa út úr hringnum. Hestar fást ekki til að leggjast í skeið. Cavallo segir, að hægt sé að ríða skeið og tölt mjúkt og fallega, en það gefi lægri einkunn.