Rosafjárlög keyrð í gegn

Greinar

Töluverð harka hefur færzt í samskipti stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga á alþingi. Þetta kemur bezt fram í umræðum og atkvæðagreiðslum um fjárlagafrumvarpið og söluskattshækkunargrein tollskrárfrumvarpsins. Fjárlagafrumvarpið skreið í gegn á lágmarksmeirihluta og tollskrárfrumvarpið hefur verið á flækingi milli deilda.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Alþýðuflokksins og Bjarni Guðnason hafa staðið saman í andstöðunni. Undanfarin ár hafa þingmenn og þingflokkar lýst óánægju sinni með slík frumvörp með því að sitja hjá. En nú finnst stjórnarandstöðunni,að fjármálastefna ríkisstjórnarinnar sé komin út í þvílíkar öfgar, að hjáseta sé ekki lengur við hæfi.

Gunnar Thoroddsen, formaður þingflokks sjálfstæðismanna lýsti þessari skoðun í yfirlýsingu, sem hann gaf fyrir hönd sjálfstæðis þingmanna við lok síðustu umræðunnar um fjárlögin. Hann sagði þar m.a.:

“Útgjöld ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvarpinu nema nú um 30 milljörðum króna og hafa nær þrefaldazt á þremur árum. Vantar þó enn inn í frumvarpið ýmis útgjöld, sem ekki verður komizt hjá að greiða.

Frumvarpið er reist á óhóflegri skattheimtu. Skattabyrðin, sem hefur hin síðustu ár verið síhækkandi hundraðshluti af þjóðarframleiðslunni, er ofviða einstaklingum og atvinnurekstri og verkar sem farg á athafnalíf þjóðarinnar.

Þótt þorri landsmanna telji gildandi tekjuskattslög algerlega óviðunandi, fyrir alþingi liggi tillögur um veigamiklar skattalækkanir og allir flokkar hafi nú viðurkennt hina brýnu nauðsyn á að draga úr beinum sköttum, gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir óbreyttum tekjuskattslögum.

Engin viðleitni er sýnileg af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að draga úr hinum geigvænlega vexti verðbólgunnar, heldur mun þetta fjárlagafrumvarp magna hana stórum, enda byggist frumvarpið á þeirri forsendu, að haldið verði áfram næsta ár á sömu óheillabraut í efnahagsmálum.

Þrátt fyrir alvarlegan vinnuaflsskort hjá aðalatvinnuvegum þjóðarinnar, keppir ríkið um vinnuaflið og spennir upp tilkostnað. Ríflegur greiðsluafgangur þyrfti að vera hjá ríkissjóði eins og nú standa sakir, en í stað þess verður frumvarpið afgreitt með raunverulegum greiðsluhalla.

Með hliðsjón af því,sem hér hefur verið rakið, varar þingflokkur sjálfstæðismanna alvarlega við þeirri háskalegu stefnu í fjármálum, sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu og mun því greiða atkvæði gegn því við lokaafgreiðslu þess.”

Ríkisstjórnin hefði átt að fara að ráði Matthíasar Bjarnasonar alþingismanns, sem ráðlagði henni við sama tækifæri að setjast niður með stjórnarandstöðunni og kanna í jólaleyfinu, hvernig skera mætti niður fjárlögin. Það verður stjórninni ekki til neinnar gæfu að hafa keyrt rosafjárlög sín í gegn með minnsta hugsanlegum meirihluta á þingi.

Jónas Kristjánsson

Vísir