Fulltrúar innflutningsverzlunarinnar og stjórnvalda urðu sér til skammar í bófahasar í sjónvarpinu í fyrrakvöld. Þar gerðu báðir aðilar sig seka um að halda fram tveimur gagnstæðum skoðunum samtímis.
Innflutningsmenn kenndu stjórnvöldum um úreltar reglur, sem leiði til óhagkvæmari innkaupa og til hærri umboðslauna erlendis en ella væri. Þetta er gamalkunn kenning, sem á mikinn rétt á sér.
Í miðjum sjónvarpsþættinum hófu innflutningsmenn svo gagnsókn úr hinni áttinni. Þeir lögðu fram tölur, sem áttu að sýna, að í rauninni væri vöruverð lægra hér en á Norðurlöndum. Notuðu þeir tækifærið til að berja sér á brjóst.
Sami tvískinnungurinn kom fram í jafnmiklum mæli hjá verðlagsstjóra og viðskiptaráðherra. Fram eftir þætti lögðu þeir þunga áherzlu á samnorræna könnun, sem átti að sýna 21-27% hærra innkaupsverð til Íslands en Norðurlandanna. Sýndi þetta alvarlega meinsemd í íslenzkri innflutningsverzlun.
Síðan mættu þeir gagnsókn innflutningsmanna með því að snúa sér í hring. Tölur um lægra vöruverð hér á landi sýndu einmitt, að núverandi verðlagshöft væru nytsamleg og nauðsynleg.
Báðir aðilar byrjuðu þáttinn með því að viðurkenna vandamálið og kenna hinum aðilanum um. Síðan luku þeir báðir þættinum með því að afneita vandamálinu og þakka sér hið ágæta ástand mála.
Öll þessi frammistaða var hin ómerkilegasta. Ekki þarf kannski að koma á óvart, þótt hagsmunaaðilar leiti víða fanga í röksemdafærslu. En það kemur vissulega á óvart, þegar stjórnvöld, sem menn héldu vera hlutlaus, leika sama leikinn.
Ekki er þetta þó svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Viðskiptaráðherra lofaði, að fé yrði útvegað til að gera skrifstofu verðlagsstjóra kleift að gera marktækan samanburð á verðmyndun hér á landi og í nálægum löndum. Slíkan samanburð þurfum við að fá, svo að gagnstæðar fullyrðingar rekist ekki lengur á.
Fyrsta samnorræna tilraunaathugunin var ekki nógu góð. Hún náði til fárra vörutegunda og aðeins til hluta verðmyndunar þeirra. Þar að auki er hún leyniplagg, sem hlýtur að vekja grunsemdir.
Að mikilvægasta leytinu var hún þó einkar gagnleg. Moldviðrið umhverfis hana er orðið svo magnað, að málið verður ekki leyst með öðrum hætti en þeim, að gerðar verði mun ýtarlegri og vandaðri kannanir.
Að fengnum slíkum upplýsingum verður unnt að byrja að ræða innflutningsverzlunina af skynsemi. Þá verður unnt að rökræða, hvort heppilegri sé álagning eða umboðslaun, sem hlaða á sig flutningskostnaði og opinberum gjöldum.
Þá verður einnig hægt að ræða, hvort ekki sé rétt að hætta prósentukerfinu í álagningu, hvort sem annað kerfi eða frelsi verði tekið upp í staðinn. Núverandi kerfi leiðir til hærra vöruverðs, hvort sem menn kenna um kerfinu eða innflutningsverzluninni.
Þá verður einnig unnt að bera saman í smáatriðum þau atriði, sem eru misjöfn í verðmyndun hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Vandamálið þarf að vera áþreifanlegt, til þess að unnt að að ráðast skynsamlega gegn því.
Þetta gerist ekki nema málsaðilar leggi niður bófahasar og fari að vinna að málinu eins og menn. Það gildir jafnt um stjórnvöld sem innflutningsmenn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið