Enn hafa samtök útgerðarmanna gengið fram fyrir skjöldu til að benda á, hve nauðsynlegt sé, að tillögur fiskifræðinga um leyfilegan hámarksafla á þorski nái fram að ganga. Enn hefur stjórn samtakanna gengið í berhögg við sjávarútvegsráðherra og aðra þá, sem líta fremur á skammtímasjónarmið.
Stjórn Landssambands íslenzkra útvegsmanna hefur lagt til, að á þessu ári verði þorskveiði Íslendinga takmörkuð við 260 þúsund lestir. Til viðbótar koma svo 15 þúsund lestir, sem um hefur verið samið við erlendar ríkisstjórnir. Samanlagt nema þessar tölur 275 þúsund lestum, og er það sú tala, sem fiskifræðingar hafa lagt til og aðalfundur Landssambandsins samþykkt.
Um leið hafa samtökin óskað eftir því, að sagt verði upp nú þegar samningum um þorskveiði útlendinga hér við land, svo að senn verði hætt að skipta þeim afla, sem í rauninni er ekki til skiptanna.
Í bréfi samtakanna til ríkisstjórnarinnar er hvatt til aukins eftirlits með fiskveiðum og framhalds á lokun veiðisvæða eftir þörfum. Þar eru einnig tillögur um, hvernig takmarka megi afla á þann hátt, að ekki komi til alvarlegs, tímabundins atvinnuleysis.
Rödd skynseminnar talar í bréfi útgerðarmanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið