Risaeðlum vísað á bug

Greinar

Fjölskyldur standa nærri daglega andspænis fjárhagslegum úrlausnarefnum. Stundum dreymir fólk um að kaupa litsjónvarpstæki, hljómflutningstæki eða skíði, svo að dæmi séu nefnd. En fólk lætur ekki undan freistingunni, því að það veit, að peningana þarf að nota í nauðsynjar.

Hin einfalda lausn að kaupa ekki einhvern lúxusinn er enginn Glistrupismi. Það eru bara venjuleg og einföld búhyggindi að haga kaupum lífsgæða eftir skynsamlegri skoðun á fjárráðum sínum hverju sinni. Allar hinar mörgu fjölskyldur, sem lifa ekki um efni fram, eru ekki kraftaverkafólk, heldur bara fólk.

Annað er uppi á teningnum hjá stóru þjóðarfjölskyldunni, þar sem ríkisstjórn og alþingi ráða fjárhagnum. Þá kaupa menn allt, sem þá langar til og helzt sem flest í einu. Þá byggja menn heilsugæzlustöð bæði á Hvolsvelli og Hellu. Þá kaupa menn Víðishús. Þá byggja menn Kröfluver að óathuguðu máli. Og þá grýta menn árlega 10-14 milljörðum í offramleiðslu afurða af ofbeittu landi.

Engan Glistrup né kraftaverkamann af neinu tagi þarf til að sjá, að meðferð ríkisstjórnar og alþingis á fjármálum þjóðarinnar er tómt rugl og endaleysa. Ekki þarf heldur neinn slíkan til að sjá hættuna í verðmerkingu landsins í formi nær ótakmarkaðrar aðstöðu til skuldasöfnunar erlendis. Það eru bara venjuleg búhyggindi að sjá, að risaeðlukerfið í þjóðarbúinu gengur ekki upp.

Höfuðmálgagn kerfisins er sjálf risaeðla íslenzkrar fjölmiðlunar, Morgunblaðið. Það skelfist mjög aðförina, sem ótal ótengdir aðilar hafa gert að hinu íslenzka risaeðlukerfi að undanförnu. Það segir, að lýðskrumarar séu að boða einfaldar og ódýrar lausnir, sem fólkið hlusti á.

Upp á síðkastið hefur færzt í aukana, að Morgunblaðið telji skoðanir og röksemdir því verri, sem fleiri vilji hlusta á þær. Þessi fælni við nútímann gekk svo langt á sunnudaginn, að leiðarinn var í anda þess, að allt nýtt sé vont.

Blaðið sá Glistrupa í öllum þingmannsefnum, sérstaklega ef þau höfðu skrifað í blöð og haft ákveðnar skoðanir gegn því, sem fyrir er. Nýir menn með nýjar skoðanir eru stórhættulegir, að mati Morgunblaðsins. Þetta sjónarmið kemur að vísu ekki á óvart eftir hina miklu herferð, sem Morgunblaðið hefur gert gegn niðurstöðum skoðanakönnunar meðal reykvískra kjósenda þess flokks, sem Morgunblaðið hefur umboð fyrir.

Nota má Glistrupisma og önnur fín orð um venjuleg búhyggindi. Þau verða alltaf einföld og ódýr, hvað sem þau eru kölluð hverju sinni. Þau segja, að ekki skuli reisa heilsugæzlustöð bæði á Hellu og Hvolsvelli, heldur aðeins á öðrum staðnum. Þau segja, að kaupa eigi ódýrari hús en Víðishús. Þau segja, að ekki eigi að styrkja offramleiðslu óseljanlegra afurða. Þannig má lengi telja.

Þetta eru hyggindi, sem almenningur kannast við og skilur, af því að hann þarf sjálfur að beita þeim í eigin fjármálum. Og nú er fólk að byrja á að hópa sig saman um að krefjast sömu hygginda af ráðamönnum þjóðarinnar í stað rugls og endaleysu. Slíkt er skelfilegt að mati risaeðla allra tíma.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið