Ríkisstyrkt rányrkja

Greinar

Í nýlegri skýrslu Rannsóknaráðs ríkisins um framtíðarhorfur sauðfjárræktar á Íslandi segir m.a.: “Framleiðni á Nýja-Sjálandi virðist mun hærri en hér, eins og ef til vill sést bezt á því, að framleiðslukostnaður nýsjálenzks bónda á 16,8 tonnum af kjöti og 6,6 tonnum af ull eftir 1650 kindur sýnist vera um það bil jafnhár og framleiðslukostnaður íslenzks bónda á 6,9 tonnum af kjöti og 0,62 tonnum af ull eftir 355 kindur.”

Þessi geigvænlegi munur á íslenzkri og nýsjálenzkri framleiðni í sauðfjárrækt skýrir nokkuð vel, hvernig landbúnaður er landstólpi á Nýja-Sjálandi, en þungur baggi á þjóðfélaginu á Íslandi. Í kjöti standa 16,8 tonn á móti 6,9 tonnum. Í ull standa 6,6 tonn á móti 0,62 tonnum. Og í kindafjölda standa 1650 kindur á móti 355 kindum. Þessi munur er óyfirstíganlegur.

Munurinn stafar ekki af meiri dugnaði né tækni Nýsjálendinga. Muninn má skilja með því að líta á landakort. Ísland er einkar harðbýlt land langt norðan akuryrkjubeltisins og er raunar á mörkum freðmýrabeltisins. Í nútíma samkeppni er landbúnaður nánast óhugsandi við slíkar aðstæður.

Raunar er furðulegt, hvað íslenzkur landbúnaður getur, þrátt fyrir afleit skilyrði frá náttúrunnar hendi. En sú geta hefur kostað miklar fórnir og er þar dýrust rányrkjan á landinu.

Ýtarlegar rannsóknir á beitarþoli og gróðri afrétta landsins hafa leitt í ljós, að gróðri fer hnignandi í þrettán sýslum landsins en batnandi í aðeins tveimur þeirra. Dreifing fræs og áburðar fyrir peninga þjóðargjafarinnar hefur ekki breytt þessu, því að sauðféð étur alla þjóðargjöfina og meira til.

Landbúnaður hefur byggzt á rányrkju næstum því frá upphafi Íslandsbyggðar. Í gamla daga átti þjóðin ekki annars kost. Nú eru hins vegar nýir tímar og nýir möguleikar til viðurværis. Við þurfum ekki lengur að lifa á því að ræna og rupla náttúru landsins.

Ekki bætir úr skák, að rányrkjan á landinu er notuð til að framleiða afurðir með háum ríkisstyrkjum til að selja þær innanlands með háum niðurgreiðslum og erlendis með háum útflutningsuppbótum. Árlegur kostnaður ríkisins af styrkjum til að halda uppi rányrkjunni nemur 11600 milljónum króna. Það er meira en ein Krafla á ári og jafnmikið og allur tekjuskattur einstaklinga á ári.

Við eigum að láta þær þjóðir um landbúnað, sem til þess hafa aðstöðu. Í hinum iðnvæddu nágrannalöndum okkar rísa fjöll af óseljanlegum landbúnaðarafurðum, sem greiddar eru niður til útflutnings. Ekki er fyrirsjáanleg nein breyting á því ástandi. Við eigum að notfæra okkur þetta og snúa okkur að arðbærari verkefnum en landbúnaði.

Með því að létta landbúnaðinum af herðum skattgreiðenda getum við látið þann draum rætast að klæða landið á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið