Fornkínverski heimspekingurinn Lao Tse hélt því fram, að vanstjórn væri betri en ofstjórn. Hugsun hans var sú, að allt stjórnvald væri í eðli sínu illt. Þess vegna væru skástu ríkisstjórnirnar þær, sem minnst færi fyrir.
Þessi kenning er einkar athyglisverð. Við höfum oft séð ríkisstjórnir stjórna með brauki og bramli og yfirleitt með hrapallegum afleiðingum. Síðasta vinstri stjórnin á Íslandi var gott dæmi um hávaðasama ofstjórn.
Ekkert er í sjálfu sér unnið við, að ríkisstjórn sé í sífellu á hvers manns vörum. Þótt ráðherrar séu í sviðsljósinu, er ekki víst, að þeir komi neinu í verk, né að verk þeirra reynist gagnleg, þegar öll hliðaráhrifin eru komin í ljós.
Hins vegar er ekki víst, að kenning Lao Tse eigi við að fullu og öllu hér á Íslandi í efnahagserfiðleikum og landhelgisbaráttu ársins 1975. Ríkisstjórn getur gengið of langt í kyrrlæti þegar mikilvæg mál eru á hverfanda hveli.
Núverandi ríkisstjórn lætur ekki mikið yfir sér. Það er að mörgu leyti ágæt stefna. Ríkisstjórnir mega til dæmis ekki rasa um ráð fram og reyna að leita uppi skyndikröfur þrýstihópa og yfirboð stjórnarandstöðu.
En óneitanlega er æskilegt, að af og til heyrist til ríkisstjórnar, svo að menn fari ekki að efast um, að hún sitji enn. Menn vilja vita, að ríkisstjórn sé til og geti tekið ákvarðanir. Vissan um slíkt er ein af kjölfestum þjóðlífsins.
Menn ætlast til dæmis til þess af ríkisstjórninni, að hún geti tekið tiltölulega skjótar ákvarðanir í landhelgismálinu, því að þar eru kringumstæðurnar sífellt að breytast. Mörgum finnst ríkisstjórnin fara sér of hægt við að taka veigamiklar ákvarðanir í þorskastriðinu.
Í þessu felst ekki gagnrýni á einstaka ráðherra. Þeir eru margir hverjir mjög eljusamir í ráðuneytum sínum. Það er fyrst, þegar þeir koma allir saman, að mönnum finnst skorta á heildarsvipinn. Mönnum finnst rikisstjórnin sem heild ekki nógu afgerandi í sumum þeim málum, sem hún fjallar um sem heild.
Meðal slíkra mála eru auk fiskveiðideilunnar mál á borð við efnahagsmál og kjaramál, sem ríkisstjórnin fjallar um sem heild og meira að segja sumpart í samráði við þrýstihópa úti í bæ.
Út af fyrir sig er allt í lagi, að Alþýðusamband Íslands taki þann kaleik frá ríkisstjórninni að setja hafnbann á vesturþýzku eftirlitsskipin hér við land. En óneitanlega eykur það frumkvæði reisn Alþýðusambandsins á kostnað ríkisstjórnarinnar.
Kenning Lao Tse um ágæti kyrrlátra og hægfara ríkisstjórna er að mörgu leyti laukrétt. Menn kæra sig ekki um, að ríkisstjórnir séu sífellt að flækjast fyrir athöfnum sinum. En í sviptingum nútímans eru þó sum mál svo brýn, að hinar fornkínversku kenningar eiga ekki við.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið