Valdhafarnir í landinu með iðnaðarráðherra í broddi fylkingar hafa lagt blessun sína yfir hrokafull afglöp stjórnar Þörungavinnslunnar hf. Þeir leyfa Steingrími Hermannssyni að sitja áfram á valdastóli Rannsóknaráðs ríkisins og Vilhjálmi Lúðvíkssyni á valdastóli stjórnarformanns. Þörungavinnslunnar hf.
Fyrirtækið á að vísu að reka með þeim hætti á næstu mánuðum, að stjórn þess geti ekki valdið miklum skaða til viðbótar við þann, sem orðinn er. Stjórnin á fyrst og fremst að halda fundi og taka stjórnarlaun, en heimamenn í Austur-Barðastrandarsýslu eiga að taka að sér reksturinn á kostnað og ábyrgð ríkisins.
Heimamenn hyggjast fara að ráðum Sigurðar V. Hallssonar verkfræðings og beita handskurði við öflun þangs fyrir verksmiðjuna. Sigurður hefur haldið því fram, að á þann hátt megi hugsanlega ná endum saman, þótt mistök við þurrkunaraðferðir geri það tvísýnt.
Sigurður taldi þangskurðarprammana ónothæfa í núverandi mynd. Afköst þeirra væru svo lítil, að 24 slíka þyrfti til að afla hráefnisins. Það væri miklu hærri tala en verksmiðjan gæti staðið undir.
Fyrir þessar kenningar var Sigurður rekinn eftir 17-18 ára rannsóknir. Þar á ofan reyndu Steingrímur og Vilhjálmur að gera hann gjaldþrota með því að neita að greiða síðustu rannsóknir hans fyrir Þörungavinnsluna og gera enn.
Niðurstöður Sigurðar hentuðu ekki Steingrími sem þingmanni kjördæmisins. Vegna atkvæðaveiða varð dæmi Þörungavinnslunnar að ganga upp. Hann fékk sér því Vilhjálm, sem sagði 6 pramma duga. Þeir urðu síðan 11, en ekkert dugði.
Síðan hefur rekstur Þörungavinnslunnar hf. verið tóm endaleysa. Ýmsir starfsmenn og jafnvel framkvæmdastjórar hafa bent á þetta og verið svarað með brottrekstri. Hroki þeirra, sem ferðinni réðu, á sér engin takmörk.
Þörungavinnslan hf. er miklu verra mál en Krafla. Í Breiðafirði komu engin náttúruöfl á óvart. Þar var fyrirfram vitað um öll vandamál, sem í ljós komu. Um þau var fjallað í skýrslum Sigurðar, sem Steingrímur og Vilhjálmur neituðu að lesa.
Afleiðingin er sú, að einum milljarði króna hefur gersamlega að ástæðulausu verið sóað af sameiginlegu fé landsmanna og að Reykhólasveit, sem hefur lagt mikið undir, rambar á barmi gjaldþrots.
Í öllum vestrænum siðmenningarlöndum hefði eigandi meirihlutafjárins, ríkið sjálft, skipt um stjórnarmenn við slíkar aðstæður og leitað aðstoðar hjá hinum sannspáa vísindamanni. Þar á ofan hefði ríkið efnt til opinberrar rannsóknar á hugsanlegri skaðabótaábyrgð þeirra, sem ferðinni réðu.
En hér á landi þarf valdastéttin ekki að standa neinn reikningsskap gerða sinna. Iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin sem heild þekkja sína. Þetta er eins og þegar Indira Gandhi var að fyrirgefa Sanjay, syni sínum.
Indverjar kunnu svör við hroka valdastéttarinnar. Spurningin er sú, hvort Íslendingar kunni svör við hroka sinnar valdastéttar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið