Ríkisborgararéttur

Greinar

Það á ekki að fara eftir geðþótta embættismanna, hvort íþróttamaðurinn Duranona fær ríkisborgararétt og íþróttakonan Eszercal fær hann ekki. Ákveðnar leikreglur eiga að gilda um frávik frá meginreglu tíu ára biðar. Með lögum skal land byggja, en með geðþótta eyða.

Það er eitt helzta einkenni Vesturlanda, að skráð lög og skráðar reglur gilda um samskipti valdhafa og einstaklinga, en ekki geðþótti valdhafa. Þetta byggist á jafnréttishugsjóninni og leiðir þar að auki til hagkvæmni, því að menn geta skipulagt mál sín fram í tímann.

Þetta er gott dæmi um, að réttlæti og hagkvæmni fara oft saman. Leikreglustefna lýðræðisins er eitt þeirra atriða, sem valdið hefur sigurför vestræns þjóðskipulags víða um heim. Hún stuðlar eindregið að traustum viðskiptum, sem eru undirstaða markaðsbúskapar.

Við þurfum að hafa skráðar reglur um, með hvaða hætti íþróttamenn fái hvaða hraða við afgreiðslu ríkisborgararéttar. Þá geta allir gengið að reglunum sem vísum og geta skilið röksemdafærsluna á bak við þær, ef þeir kæra sig um. Minni deilur verða en ella.

Við vitum, að hagsmunir þjóðarinnar ráða mestu um frávikin. Menn fá hraðari afgreiðslu, ef þjóðin þarf á þeim að halda í landsliði gegn öðrum þjóðum. Þetta er góð og gild forsenda, en hún á ekki að vera neitt leyndarmál og hún á að gilda jafnt fyrir alla.

Þjóðin þarf á fleirum að halda en íþróttamönnum einum. Það kæmi sér vel að fá hingað hæft fólk á fleiri sviðum, svo sem í kaupsýslu og tölvufræðum. Við eigum að laða slíkt fólk að með skilgreindum frávikum frá meginreglunni um tíu ára bið eftir ríkisborgararétti.

Meginreglan sjálf er ágæt, því að ríkisborgararéttur er verðmætur hlutur og verður enn verðmætari með auknum þrýstingi af völdum fólksfjölgunar í umheiminum. Fólk reynir í vaxandi mæli að losna undan fargi mannhafs þriðja heimsins og komast til Vesturlanda.

Ýmis ríki, sem hingað til hafa haft tiltölulega frjálslegar reglur um landvist, sem síðar leiðir til ríkisborgararéttar, hafa rekið sig á torleyst vandamál, sem felast að mestu í skorti á aðlögun að aðstæðum. Hvorki nýbúar né heimamenn hafa reynzt undir þessi vandamál búnir.

Í löndum vandamálsins hafa risið stjórnmálaflokkar, sem hafa stöðvun landvistarleyfa og ríkisborgararéttar á stefnuskrá. Þeir hafa víða fengið 10-20% fylgi í kosningum og trufla hefðbundið gangverk stjórnmálanna. Þetta stafar af andúð margra kjósenda á nýbúum.

Andúðin stafar sumpart af fordómum heimamanna og sumpart af skorti á aðlögunarvilja nýbúa. Þeir koma sumir frá öðrum menningarheimum en vestrænum og vilja halda sínum siðum, sem stangast á við siði heimamanna. Andstæðan leiðir til ágreinings og úlfúðar.

Þetta er ekki kynþáttamál. Frönskumælandi og frönskumenntaðir svertingjar hafa fallið vel að Frakklandi. Arabiskumælandi og íslamstrúaðir hvítingjar hafa hins vegar verið vaxandi fleinn í holdi franskra stjórnmála. Það er menningin, en ekki liturinn, sem gildir.

Bandaríkin eru dæmi um takmörkin á deiglu þjóðanna. Þar runnu flóttamenn úr Evrópu saman í þjóð. Það gera hins vegar ekki hvítir Mexíkómenn, sem koma að sunnan. Þeir halda áfram að tala sína spönsku og lagast síður en Evrópumenn að bandarísku þjóðfélagi.

Við skulum því halda ströngum reglum um landvist og ríkisborgararétt, en hafa undanþágurnar skýrar og skilgreindar, svo að geðþótta verði ekki beitt.

Jónas Kristjánsson

DV