Ríkið er sekt.

Greinar

Ólafur Jóhannesson viðskiptaráðherra hefur lög að mæla, þegar hann segir þjóðina lifa um efni fram. En það væri rangt að kenna almenningi um þessa eyðslu, því að það er fyrst og fremst óhófsemi ríkissjóðs, sem veldur efnahagsvandræðum þjóðarinnar um þessar mundir.

Björn Matthíasson hagfræðingur benti á í athyglisverðri kjallaragrein í Dagblaðinu í síðustu viku, að hlutdeild ríkisins í þjóðarbúinu jókst á fjórum árum úr 23% árið 1970 í 36% árið 1074. Eitthvað verður undan að láta, þegar ríkisvaldið gerist svo frekt til fjárins, sem þessi prósentuaukning sýnir.

Magnús Jónsson frá Mel hefur af sumum verið kallaður síðasti íhaldsmaðurinn í ráðherrastól á Íslandi. Honum tókst í ráðherratíð sinni að halda ríkisgeiranum í um það bil 20% af þjóðarkökunni, enda var þá ekki kvartað um, að þjóðin lifði um efni fram.

Þegar vinstri stjórnin hafði sprengt upp eyðslu rikissjóðs, bundu menn miklar vonir við tilkomu nýrrar ríkisstjórnar fyrir rúmu ári. En nýja ríkisstjórnin reyndist ekki geta dregið aftur úr ríkisgeiranum og hafði tímaskort sér til afsökunar.

Ekki er unnt að segja, að þróunin síðan hafi verið traustvekjandi. Alþingismenn þjóðarinnar lentu á eyðslutúr fyrir jólin í fyrra og reyndust ákaflega opnir fyrir nýjum tillögum um opinber útgjöld.

Í neyðarástandinu, sem fylgdi í kjölfarið upp úr áramótunum, var reynt að skera ríkisútgjöldin niður um fjóra milljarða. En þingmenn treystu sér ekki í nema tvo milljarða, þegar á hólminn kom.

Og fátt bendir til þess, að ríkisstjórnin hafi framkvæmt þennan tveggja milljarða króna niðurskurð. Í staðinn hefur hún hækkað álögur sínar um tvo og hálfan milljarð með nýju vörugjaldi og hækkun tóbaks og áfengis.

Rikisstjórnin á nokkra möguleika á að endurheimta töluvert af fyrra trausti, ef henni tekst nú á þessu hausti að leggja fram og knýja í gegn fjárlagafrumvarp, sem rýrir verulega hlut ríkisins í þjóðarbúskapnum.

Ekki er sanngjarnt að hvetja almenning og atvinnuvegi til að herða sultarólina. Það er ríkissjóður sjálfur, sem veldur því, að dæmi þjóðarbúskaparins gengur ekki upp. Ef ríkisvaldið hefði á síðustu árum aðeins aukið umsvif sin í takt við eflingu þjóðarbúsins, væri allt í stakasta lagi.

Við erum greinilega komnir í hinn brezk-danska vítahring ríkisþenslu, stöðnunar framleiðslu og lífskjara og mikils viðskiptahalla gagnvart útlöndum. Þessi vítahringur verður ekki stöðvaður, nema ríkisstjórn og Alþingi sýni manndóm og láti ekki undan þrýstingi í átt til aukinna opinberra umsvifa.

Almenningur og atvinnuvegir hafa þegar hert sinar sultarólar. En ríkissjóður á enn alveg eftir að herða sina. Sú herðing á að nægja til að koma þjóðarskútunni aftur á flot. Ríkisstjórnin stendur og fellur með því, hvort hún hefur til þess dug.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið