Ríkið ærist

Greinar

Auglýsingar innheimtudeilda ríkisins um gjalddaga eru sífellt að verða ruddalegri. Æ fleiri slíkar deildir taka upp þann ósið að vera með hótanir inni á gafli á hverju heimili. Þessi síbylja útvarps-, sjónvarps- og blaðaauglýsinga er óneitanlega orðin afar hvimleið.

Að baki þessara auglýsinga er sjúkleg tilfinning fyrir valdi. Víðast hvar eiga kröfur ríkisins forgang umfram aðrar kröfur. Miskunnarlaust er beitt þeirri aðferð að loka fyrir einokunarþjónustu, ef menn beygja sig ekki samstundis fyrir hótunum innheimtudeildanna.

Vélmenni eru send um borg og bý til að loka fyrir einokunarþjónustuna. Sé veifað framan í þau kvittunum fyrir greiðslu, þá svara þau: “Ég er bara ráðinn til að loka. Þú verður að fara með þetta blað á SKRIFSTOFUNA á morgun og sýna ÞEIM það.”

Höfundi þessa pistils er minnisstætt gamalt samtal við þáverandi innheimtulögfræðing ríkisútvarpsins, sem ekki vildi hlusta á fullyrðingar um, að fjölda vitna mætti leiða að því, að útvarpstæki hefði aldrei komið í ákveðinn bíl og því væri innheimta slíks afnotagjalds marklaus. “Hið opinbera hefur ekki rangt fyrir sér”, sagði lögfræðingurinn.

Og það er ekki nóg með, að stofnanir ríkisins séu aðgangsharðastar allra kröfuhafa. Þar á ofan eru þær fyrstar allra til að hækka gjöld sín. Það eru einmitt stofnanir ríkisins, sem hafa forustu í verðbólgunni.

Dagblaðið hefur að undanförnu birt nokkrar fréttir, sem sýna, hvernig bankarnir þverbrjóta reglur Seðlabankans til að hafa fé af viðskiptavinum sínum, einkum þeim, sem nota ávísanahefti. Enginn þorir að æmta né skræmta gegn þessu ofbeldi af ótta við að lenda í ónáð hjá voldugum anga kerfisins.

Sjaldnast þarf ríkið að brjóta lög til að hafa sitt fram. Það á niðri við Austurvöll 60 þræla, sem eru boðnir og búnir að samþykkja lög, er embættismenn semja um nýjar og stærri ríkisstofnanir og fela jafnan í sér ákvæði um forgang í innheimtu.

Ef við lítum á ríkið sem kastala sögulegrar hefðar um sveit embættismanna og þjóðarleiðtoga, þá er eins og þessi sveit hafi ærzt af sjálfstrausti og öryggi. Öllu ræður ríkið, stóru og smáu. Hinn frjálsborni borgari er orðinn að lénsskyldum þegni, meira að segja bundinn fjárhagslegum átthagafjötrum eins og þegnar Sovétríkjanna.

Að þessu Il súpa Íslendingar seyðið af ríkiskapítalismanum, sem byggður var upp hér á kreppuárunum og leiddi til þess, að menn töldu almennt, að ríkið væri afl þeirra hluta, sem gera skyldi. Úr þessu hefur mótazt tilfinningasljótt bákn, tryllt af græðgi, sem minnir í nútímanum á risaeðlur miðalda jarðsögunnar.

Ef til vill verða þessar hamfarir ríkisins til nokkurs gagns, áður en yfir lýkur. Þær kunna að leiða til þess, að ríkisdýrkun rýrni með þjóðinni. Þegar kúgunin verður óbærileg, kann fólkið að rísa upp sér til varnar. Ef það hjól fer loks af stað, stöðvast það ekki fyrr en þegnar ríkisins eru orðnir frjálsir borgarar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið