Riddari á röngum stað

Greinar

Bygging Seðlabankahússins við Arnarhól hefur vakið miklar umræður Reykvíkinga. Sýnist sitt hverjum um húsið og staðsetningu þess. Sumir segja, að óþarfi sé að elta Seðlabankann um allan bæinn, einhvers staðar verði vondir að vera. Hinir eru fleiri, ef marka má lesendabréf dagblaðanna, sem ekki vilja sjá seðlabankahús á þessum stað.

Vísir hefur nokkrum sinnum birt mynd, þar sem líkan hússins er sett í réttu stærðarhlutfalli inn í mynd af Arnarhólnum og nágrenni hans. Ætti sú mynd að geta auðveldað mönnum að gera upp hug sinn til málsins.

Nú hefur það gerzt, að heldur ólíklegur riddari hefur geystst fram á deiluvöllinn. Hann flytur ekki fagurfræðileg, söguleg eða útsýnisleg rök eins og flestir hinna, heldur efnahagsleg rök. Má af málflutningi hans ætla, að loksins sé fundin lausn á efnahagsvandanum. Hús Seðlabankans ráði úrslitum í óhóflegri útþenslu byggingaframkvæmda.

Og hver er það, sem hefur svona miklar áhyggjur af útþennslunni. Það er auðvitað mesta útþenslustofnun landsins, Framkvæmdastofnunin. Engin stofnun þjóðfélagsins hefur á jafn skömmum tíma staðið fyrir eins mikilli útþenslu, bæði eigin rekstrar og ríkisrekstrar, og einmitt þessi hneykslaða stofnun.

Seðlabankinn sætti um tíma töluverðri gagnrýni fyrir óhóflega eigin útþenslu, of örar mannaráðningar. Fellur hann þó gersamlega í skugga hinnar nýju stofnunar, sem er á góðri leið með að verða eitt fjölmennasta fyrirtæki landains.

Framkvæmdastofnunin var varla fædd, þegar hún lét með ærnum tilkostnaði innrétta stórhýsi við Rauðarárstíg. Gamansamur maður reiknaði út um daginn, að með sama áframhaldi mundi hver einasti Íslendingur stunda skriffinnsku hjá Framkvæmdastofnuninni eftir þrjá áratugi.

Ríkisstjórnin hefur nægileg vandamál, þótt vandræðabarn hennar fari ekki að setja hana í nýjan bobba. Framkvæmdastofnunin skoraði á ríkisstjórn og bankastjórn Seðlabankans, væntanlega bankaráðið, þar sem stjórnarflokkarnir hafa meirihluta, að stöðva málið. Tíminn segir, að þetta sé ekki mál ríkisstjórnarinnar, heldur Lúðvíks Jósepssonar eins sem bankamálaráðherra. Lúðvík segist ekkert hafa með málið að gera. Þannig er menúettinn stiginn í ríkiskerfinu þessa dagana.

Það er mjög eðlilegt, að almennir borgarar hafi ýmislegt út á hús Seðlabankans og staðsetningu þess að setja. En Framkvæmdastofnunin á ekki heima í þeim hópi gagnrýnenda. Hún á ekki að kasta steinum úr glerhúsi sínu. Það gæti leitt til þess, að almenningi dytti í hug ný lausn á húsnæðisvanda Seðlabankans, sú lausn, að Framkvæmdastofnunin verði lögð niður, en Seðlabankinn fái húsið við Rauðarárstíg. Það væri áreiðanlega ódýr og þjóðhagslega hagkvæm lausn.

Framkvæmdastofnunin veldur ekki hlutverki riddarans í þessu máli. Hún er sá aðili, sem minnst ætti að tala um útþenslu í efnahagslífinu og framleiðslu efnahagslegra vandamála.

Jónas Kristjánsson

Vísir