Virki hvítra manna í sunnanverðri Afríku eru að hrynja. Stjórn Ians Smith í Rhodesíu hefur svo að segja gefizt upp fyrir sameinuðum þrýstingi innan og utan álfunnar. Og athafnir stjórnar Vorsters í Suður-Afríku bera einkenni vaxandi taugaveiklunar.
Í uppsiglingu er Zimbabwe, nýtt ríki svartra manna í stað Rhodesíu. Þjóðarleiðtogi þess verður líklega Joshua Nkomo. Hann nýtur stuðnings Zambíu og annarra nágrannaríkja í Afríku, svo og bæði Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, og síðast en ekki sízt námuhringsins Lonrho, sem hefur mikil umsvif í Rhodesíu.
Þessi öfl hafa veðjað á Nkomo sem tiltölulega ofstopalausan og viðræðugóðan stjórnmálamann, er hingað til hefur haldið aftur af skæruliðum sínum. Mest nýtur hann þó 20 ára vináttu sinnar við Kenneth Kaunda, forseta Zambíu.
Nkomo er tekinn fram yfir Robert Mugabe, sem stjórnar hryðjuverkamönnum þeim, er mest hafa látið að sér kveða í Rhodesíu. Hann er líka tekinn fram yfir Abel Muzorewa biskup, sem hefur reynt að starfa innan kerfisins í Rhodesíu og nýtur sennilega mests stuðnings svartra manna í landinu.
Andstaðan gegn minnihlutastjórn hvítra manna í Rhodesíu hefur þannig sameinazt að baki einum manni. Meira að segja hefur stjórn Suður-Afríku reynt að stuðla að valdatöku Nkomos, enda veit hún, að hvítir menn hafa enga herfræðilega möguleika á að halda völdum sínum í Rhodesíu.
Í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefur náðst samkomulag um, að indverskur og brezkur hershöfðingi stjórni Rhodesíu í sex mánuði, áður en Nkomo tekur við. Á þeim tíma á að hrista saman her hvítra manna og skæruliðasveitir Nkomos.
Hið víðtæka samkomulag um Nkomo er merkilegt dæmi um alþjóðlegt samstarf. Stjórn Sovétríkjanna gæti fundizt Mugabe heppilegri leiðtogi og stjórnum Vesturveldanna gæti litizt betur á Muzorewa. En allir virðast hafa slegið nokkuð af sjónarmiðum sínum til að ná almennri samstöðu. Heimurinn er ekki alltaf á kafi í köldu stríði.
Athyglisvert er, að það er einmitt námuhringurinn Lonrho, sem hefur í heilt ár greitt mestan hluta af rekstrarkostnaði Nkomos og hirðar hans. Það bendir til, að stjórnmálarefir fyrirtækisins telji hagsmunum þess borgið undir stjórn Nkomos.
Auðvitað á Nkomo eftir að komast yfir ýmsa þröskulda. Hann þarf að ná tökum á hryðjuverkasveitum Mugabes eða sigrast á þeim. Hann þarf að sigra Muzorewa biskup í almennum kosningum undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna.
Alltaf er svo hætta á, að taugaveiklun grípi um sig meðal hvítra manna í Rhodesíu og þeir rísi upp gegn valdaafsali í hendur svartra manna. Þá verður blóðbað í landinu. En hinir svörtu verða ofan á eigi að síður. Zimbabwe er orðin óumflýjanleg staðreynd, hvort sem hvítum mönnum líkar betur eða verr.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið